Þriðja fundi Verkalýsfélags Akraness, VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Grindavíkur með Samtökum atvinnulífsins(SA) hjá ríkissáttasemjara er lokið. Félögin vísuðu deilu sinni til sáttasemjara fyrir áramót. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, greindi frá því í vikunni að ef að ekki næðist sátt á fundinum í dag kæmi til greina að slíta viðræðum.

Vilhjámur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir enn vera breitt bil milli samningsaðila og ljóst sé að ábyrgð allra aðila sé mikil.

„Fundurinn var svo sem eins og við áttum von á. Við fengum skýrari mynd á það hvernig staðan er og núna erum við bara að fara að funda með okkar baklöndum og vega og meta stöðuna,“ segir Vilhjálmur. „Það er ljóst að ábyrgðin er mikil hjá okkur að finna einhvern flöt á málinu. Þar skiptir máli máli að horfa ekki bara til verkalýðshreyfingarinnar heldur þurfa Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld að svo sannarlega að koma að.“

Næsti fundur verður á mánudaginn klukkan tíu og segir Vilhjálmur að þá verður farið yfir stöðuna á ný. „Megin verkefnið okkar er að ná að auka hér ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á þessum lægstu töxtum með þeim hætti að fólk geti hér framfleytt sér frá mánuði til mánuði.“

Segir hann margar leiðir til þess og þar skipti aðkoma stjórnvalda miklu máli. „Meðal ananrs með skattabreytingum og barnabótum og lækkun vaxta,“ segir hann. „Nú þurfa menn bara að hugsa út fyrir boxið og reyna að koma í veg fyrir að það stefni hér í ein hörðustu átök á íslensum vinnumarkaði í jafnvel áratugi.“ 

Fréttin hefur verið uppfærð.