Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, birti mynd á Facebook-síðu sinni af sér ásamt Cristinu Fernández de Kirchner, varaforseta og fyrrum forseta Argentínu, fyrr sama dag og hún var dæmd í sex ára fangelsi. Dómur í máli Kirchners var felldur í gær, en hún hefur lengi sætt ásökunum um spillingu í embætti. Hún getur enn áfrýjað dómnum og mun ekki þurfa að afplána hann á meðan hún nýtur þingmannsfriðhelgi.

Kristinn hafði átt fund með Kirchner og með Alberto Fernández, núverandi forseta Argentínu, daginn áður en dómurinn var felldur. Ræddi hann þar um málssókn Bandaríkjastjórnar gegn Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, sem er í fangelsi í Bretlandi á meðan fjallað er um fyrirhugað framsal hans til Bandaríkjanna.

Í færslunni tjáði Kristinn sig stuttlega um yfirvofandi dóminn gegn Kirchner: „Síðar í dag fellur dómur í undirrétti í málssókn gegn CFK vegna ásakana um spillingu. Flestum ber saman um að hún verði sakfelld. Sumir sem telja hana seka um einhvern hluta ásakananna telja þó samt að pólitískur blær sé á allri málssókninni og sannanir ákæruvaldsins ákaflega þunnar.“

Kristinn sagðist ánægður með að pólitískir leiðtogar Argentínu hefðu lýst yfir stuðningi við Assange og myndu beita stjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta þrýsting til að fá Bandaríkjamenn til að falla frá málaferli sínu gegn honum.

Kristinn hefur fundað með öðrum leiðtogum í Rómönsku Ameríku á síðustu vikum, þar á meðal Gustavo Petro forseta Kólumbíu og Luiz Inácio Lula da Silva, fyrrverandi og verðandi forseta Brasilíu, og fengið þá til að árétta stuðning sinn við Assange.

„Kjölfesturríki heillar heimsálfu styðja nú málstaðinn. Ef það dugir ekki til að breyta kúrs Bandaríkjastjórnar verða pólitískir leiðtogar Evrópu að taka málið upp. Það er ekki boðlegt að standa hjá þegjandi þegar gróft mannréttindabrot er framið og versta ógn gegn fjölmiðlafrelsi Vesturlanda blasir við.“