Þorgrímur Kári Snævarr
Fimmtudagur 14. júlí 2022
05.00 GMT

Sameinuðu þjóðirnar tilkynntu á þriðjudaginn að fjöldi staðfestra andláta óbreyttra borgara í innrásinni í Úkraínu væri nú kominn yfir fimm þúsund. Aðeins er þó þar um að ræða andlát sem hafa verið óyggjandi staðfest og ljóst er að raunverulegur fjöldi látinna er mun meiri. Í gögnum Sameinuðu þjóðanna eru 5.024 óbreyttir borgarar taldir af, þar á meðal rúmlega 300 börn.

Nú síðast létust fimm manns í borginni Míjkolajív í suðurhluta landsins eftir eldflaugaárás Rússa. Þá létust að minnsta kosti 43 manns í eldflaugaárás Rússa á íbúðablokk í borginni Tsjasív Jar á laugardaginn.

Rússneski herinn lauk yfirtöku Lúhansk-héraðsins að fullu þegar hann hrakti Úkraínumenn frá borginni Líjsíjtsjansk í byrjun júlí. Úkraínumenn halda enn töluverðu landsvæði í nágrannahéraðinu Donetsk, sem Rússar vilja einnig „frelsa“ fyrir hönd aðskilnaðarsinna. Eftir að Rússum mistókst að hertaka Kænugarð í leiftursókn sinni við upphaf innrásarinnar hafa þeir einbeitt sér í auknum mæli að Donbas-héruðunum tveimur og hafa hægt og bítandi sótt fram. Stríðsrannsóknastofnunin (e. Institute for the Study of War) í Bandaríkjunum telur að Rússar komi til með að gera hlé á sóknum sínum eftir sigurinn í Líjsíjstjansk til þess að geta undirbúið frekari áhlaup.

Vilja opna siglingaleiðir

Ein af alvarlegustu afleiðingum innrásarinnar fyrir heimsbyggðina hefur verið truflun á matvælaflutningi frá úkraínskum höfnum við Svartahaf. Úkraína er með afkastamestu hveitiútflytjendum í heimi og útilokun úkraínsks korns frá heimsmörkuðum hefur víða stuðlað að verðbólgu í matvælaverði.

Sendinefndir frá Úkraínu og Rússlandi funduðu því í gær í Istanbúl ásamt fulltrúum Tyrklands og Sameinuðu þjóðanna til að freista þess að semja um öruggar siglingar úkraínskra flutningaskipa um Svartahaf.

„Úkraína mælir með því að leyst verði úr deilunni um opnun úkraínsks kornútflutnings undir umsjón Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Oleg Níkolenko, talsmaður úkraínska utanríkisráðuneytisins, við Reuters-fréttastofuna. „Við erum í þessum efnum þakklát António Guterres aðalritara fyrir virkar tilraunir hans til að finna lausn sem mun tryggja öryggi suðurhéraða lands okkar.“

Jafnvel þótt komist verði að samkomulagi er ekki líklegt að matvælaflutningur frá Úkraínu fari í sama horf og fyrir árásina. Pjotr Íljítsjov, talsmaður hjá rússneska utanríkisráðuneytinu, tók fram að Rússar myndu leggja fram tilteknar kröfur áður en fallist yrði á samkomulag. „Skiljanleg skilyrði okkar eru meðal annars möguleikinn á að stjórna og leita á skipum til að koma í veg fyrir vopnasmygl og að Kænugarður skuldbindi sig til að setja ekki á svið ögranir.“

Dmíjtro Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði jafnframt við AP-fréttastofuna að Úkraínumenn yrðu á móti að fá tryggingar fyrir því að Rússar gerðu ekki árásir á hafnarborgir í gegnum opnar siglingaleiðir.

Áætlun sem Sameinuðu þjóðirnar hafa stungið upp á gengur út á að skipin sigli eftir ákveðnum leiðum sem fari fram hjá tundurduflum. Úkraínumenn hafa neitað að fjarlægja duflin af ótta við að það geri hafnarborgina Odesa berskjaldaða fyrir árás rússneskra herskipa.

Ekki vongóður um frið

Á meðan rússnesk herskip hafa lokað siglingaleiðum frá höfnum Úkraínu við Svartahaf hafa Úkraínumenn reynt að auka útflutning sinn á korni með því að sigla flutningaprömmum vestur eftir Dóná. Þessi flutningaleið getur þó ekki komið í stað kaupskipaleiðanna um Svartahaf. Til þess eru innviðir við bakka Dónár ekki nógu þróaðir. Í sjónvarpsávarpi í gær tók Taras Víjsotskíj, aðstoðarmatvælaráðherra Úkraínu, fram að um níutíu prammar hefðu raðast upp á fljótinu og að það gæti tekið margar vikur að koma þeim öllum frá.

Í viðtali sínu við AP sagði Kúleba einnig að her Úkraínu væri að búa sig undir endurheimt allra borga og bæja sem Rússar hafa hertekið. Hann sagðist ekki vongóður um að haldið yrði til friðarviðræðna í nánustu framtíð, enda væru Rússar enn í stríðsham og sæktust ekki eftir viðræðum í góðri trú.

Kúleba sagði að á hernumdum landsvæðum hefðu Rússar hafið aðgerðir sem virtust miða að því að lima þau inn í rússneska sambandsríkið. Meðal annars hefðu þeir innleitt rússneska námskrá í skólum á svæðinu, innleitt rússnesku rúbluna og útbýtt rússneskum vegabréfum. „Ég er nokkuð viss um að þegar þessi svæði eru frelsuð mun langflest fólkið brenna rússnesku vegabréfin sín svo lítið beri á í arineldinum,“ sagði Kúleba.

Stríðið í tölum

Samkvæmt Mannréttindastofu Sameinuðu þjóðanna nemur staðfest mannfall óbreyttra borgara 5.024 manns. Þá hafa að minnsta kosti 6.520 slasast.

Innviðaráðuneyti Úkraínu segir að sextán skip hafi siglt í gegnum nýopnuð síki út í Dóná á síðustu dögum. Opnun síkisins út í Dóná sé mikilvægt skref við að hraða matvælaútflutningi.

Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur tilkynnt að 1,7 milljörðum Bandaríkjadala verði varið í efnahagshjálp fyrir Úkraínu til að hjálpa landinu að koma sér á réttan kjöl eftir innrásina.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, telur að um 900.000 til 1,6 milljónir úkraínskra borgara hafi verið fluttar nauðungarflutningum til Rússlands, þar á meðal 260.000 börn.

Athugasemdir