Hættu­stigi var lýst yfir á Seyðis­firði í gær vegna yfir­vofandi hættu á skriðu­föllum og nokkur hús rýmd. Í kjöl­far mikillar úr­komu undan­farna daga fóru mæli­tæki Veður­stofunnar, sem vakta hlíðina ofan Seyðis­fjarðar, að sýna að stór fleki í jaðri skriðu­sársins við Búðar­á væri kominn á hreyfingu.

„Það í rauninni á eftir að taka á­kvörðun um hvort að rýmingu verði fram­haldið en það er sem sagt enn þá hreyfing í gangi sem við sjáum á mælum og það verður fundur seinna í dag um það,“ segir Esther.

Að sögn hennar er flekinn enn þá á hreyfingu og er óttast að hann gæti mögu­lega farið af stað þegar byrjar að rigna í seinni hluta vikunnar.

„Það er þarna fleki sem er á hreyfingu og það er aðal­lega þegar það fer að rigna í seinni hluta vikunnar sem að við erum hrædd um að það gæti orðið meiri hraði á þessu. En hins vegar náttúr­lega var þetta af­leiðing af rigningu sem var um helgina,“ segir hún.

Dregið úr úr­komu

„Í rauninni er bara verið að bíða og sjá að þetta sjatni. Það hefur dregið í úr­komu, það rigndi eitt­hvað að­eins þarna í gær en svo bara verðum við að sjá hvernig þetta nær að sjatna í dag,“ segir Esther Hlíðar Jen­sen, sér­fræðingur á ofan­flóða­vakt Veður­stofunnar.

Eftir því sem hún best veit hafa ekki fallið nýjar skriður við Kinn og Út­kinn en ef ein­hverjar hafa fallið mun það sjást þegar svæðið verður rann­sakað aftur í dag, því ekki var hægt að fara inn á það í gær.

Veður­stofan fylgist einnig náið með gangi mála á fleiri stöðum á Norður- og Norð­austur­landi en Esther segir að fleiri svæði séu ekki talin vera í hættu.

„Við erum búin að vera að fylgjast með Norður­landi á fleiri stöðum, það var Ólafs­fjörður, en svo er í rauninni búið að sjatna þar.“