Nú klukkan 13 hófst fundur Stein­gríms J. Sig­fús­sonar, for­seta Al­þingis, með for­mönnum þing­flokka en við­búið er að endur­koma þeirra Gunnars Braga Sveins­sonar og Berg­þórs Óla­sonar, þingmanna Miðflokksins, muni bera þar á góma. Stein­grímur segir í sam­tali við Frétta­blaðið að ósk hafi borist frá for­mönnum á­kveðinna þing­flokka um fundinn.

„Ég varð að sjálf­sögðu við því,“ segir hann. Hann kveðst ekki vilja tjá sig neitt frekar um efni fundarins en um hreinan auka­fund sé að ræða. Fundir af þessu tagi fari alla jafna ekki fram á síðari hluta vikunnar. 

Guð­mundur Ingi Kristins­son, þing­flokks­for­maður Flokks fólksins, gerir ráð fyrir að endur­koma Mið­flokks­manna verði tekin fyrir á fundinum. Einnig hyggst hann bregðast þar við um­mælum fyrr­verandi flokks­bróður síns, Karls Gauta Hjalta­sonar, sem nú situr sem óháður þingmaður ásamt Ólafi Ísleifssyni.

„Ég hef heyrt að sum­ir hafi sagt að ég hafi verið þarna á vinnu­­tíma, eða þegar á þing­fundi stóð, þó að ég hafi verið bú­inn með mína ræðu. Þessi póst­ur er sönn­un á því að slíkt þekk­ist meðal þing­manna,“ sagði Karl Gauti í sam­tali við Morgun­blaðið í dag og vísaði þar til pósts frá Helgu Völu Helga­dóttur, þing­manni Sam­fylkingarinnar, frá því síðasta sumar, þar sem hún hvatti nefndarmenn í um­hverfis- og sam­göngu­nefnd að mæta á Klaustur, seinni part föstu­dags. 

Guð­mundur Ingi segir um­mæli Karls Gauta graf­alvar­leg, það er að segja að full­yrða að allir þing­menn hafi gerst sekir um að van­rækja þing­störf til að bregða sér á barinn. „Það er al­var­legt að segja að allir hagi sér svona,“ segir Guð­mundur og bætir við að póstur Helgu Völu hafi verið sendur að fundi loknum, klukkan 16.37 föstu­daginn 1. júní, og því eigi málið ekkert skylt þeirra sem sátu á Klaustri á meðan þing­fundi stóð.

Uppfært: Fundi nefndarinnar var, samkvæmt fundargerð, slitið klukkan 18.34 hinn 1. júní. Fundargerðina má sjá hér.