Vopnaburður og öryggi lögreglumanna verður ræddur á fundi stjórnar Landssambands lögreglumanna í dag, samkvæmt frétt Morgunblaðsins.
Formaður sambandsins, Fjölnir Sæmundsson segir skiptar skoðanir um málið en almennt telji hann fáa lögreglumenn vilja vera vopnaðir í vinnunni.
Gengi lögreglan um með skotvopn myndi það breyta samskiptum almennings við lögregluna. Sérsveitin ber vopn og víða eru lögreglubílar með skotvopn í læstri hirslu. Lögreglumenn þurfa að hafa hlotið þjálfun til að mega nota skotvopnin og fá leyfi frá yfirmanni hverju sinni.
Stundum hafa lögreglumenn á Keflavíkurflugvelli borið vopn tímabundið vegna yfirvofandi hryðjuverkaógnar, samkvæmt frétt mbl.is.
Almennt eigi að kalla til sérsveitina ef þörf er á vopnum en ef biðin í hana er of löng er hægt að grípa til skotvopnanna í lögreglubílum. Það gerist helst á landsbyggðinni.
Lögreglumenn klæðast öryggisvestum að staðaldri sem eru ekki skotheld. Hægt er að gera þau skotheld með því að setja plötur í vestin en það er tímafrekt. Eins er of þungt að vera með plöturnar í öllum stundum. Plöturnar eru í lögreglubílum ásamt skotheldum hjálmum.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir það allrar skoðunar vert eins og ástandið sé orðið að lögreglan hérlendis beri rafbyssur. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði opinberlega í gær að hugsanlega þurfi að vopna lögregluna með rafbyssum vegna þróunar mála.