Vopna­burður og öryggi lög­reglu­manna verður ræddur á fundi stjórnar Lands­sam­bands lög­reglu­manna í dag, sam­kvæmt frétt Morgun­blaðsins.

For­maður sam­bandsins, Fjölnir Sæ­munds­son segir skiptar skoðanir um málið en al­mennt telji hann fáa lög­reglu­menn vilja vera vopnaðir í vinnunni.

Gengi lög­reglan um með skot­vopn myndi það breyta sam­skiptum al­mennings við lög­regluna. Sér­sveitin ber vopn og víða eru lög­reglu­bílar með skot­vopn í læstri hirslu. Lög­reglu­menn þurfa að hafa hlotið þjálfun til að mega nota skot­vopnin og fá leyfi frá yfir­manni hverju sinni.

Stundum hafa lög­reglu­menn á Kefla­víkur­flug­velli borið vopn tíma­bundið vegna yfir­vofandi hryðju­verka­ógnar, sam­kvæmt frétt mbl.is.

Al­mennt eigi að kalla til sér­sveitina ef þörf er á vopnum en ef biðin í hana er of löng er hægt að grípa til skot­vopnanna í lög­reglu­bílum. Það gerist helst á lands­byggðinni.

Lög­reglu­menn klæðast öryggis­vestum að stað­aldri sem eru ekki skot­held. Hægt er að gera þau skot­held með því að setja plötur í vestin en það er tíma­frekt. Eins er of þungt að vera með plöturnar í öllum stundum. Plöturnar eru í lög­reglu­bílum á­samt skot­heldum hjálmum.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir það allrar skoðunar vert eins og ástandið sé orðið að lögreglan hérlendis beri rafbyssur. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði opinberlega í gær að hugsanlega þurfi að vopna lögregluna með rafbyssum vegna þróunar mála.