Evrópusambandið og Bretland hafa bæði lýst yfir vilja til þess að leysa þau vandamál sem Norður-Írland stendur nú frammi fyrir en eftir að Bretar gengu úr Evrópusambandinu fyrir fullt og allt í upphafi árs urðu miklar tafir á innflutningi.

Staðan versnaði síðan um páskana þegar óeirðir brutust út milli þjóðernissinna og sambandssinna nálægt Belfast þar sem tugir særðust, þar á meðal fjölmargir lögreglumenn, og mikið var um eignaspjöll.

Maroš Šefčovič, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, og David Frost, aðalsamningamaður Breta í gegnum Brexit, funduðu ítarlega um stöðuna í gær en að sögn Frost ganga viðræðurnar vel og er lausn á krísu Norður-Írlands í augnsýn. Frost tók þó fram að eftir stæðu erfið verkefni sem mikilvægt væri að ræða.

Að sögn Evrópusambandsins er mikilvægt að málið verði leyst sem fyrst en viðræður hafa þegar staðið yfir í þrjár vikur. Viðræður halda áfram næstu tvær vikur þar sem einnig verður rætt við leiðtoga á ýmsum sviðum á Norður-Írlandi.