For­stjóri Land­spítalans, heil­brigðis­ráð­herra og sótt­varna­læknir funda í dag um stöðu Land­spítalans og heil­brigðis­kerfisins alls. Fundurinn hófst núna rétt fyrir tvö.

„Fundurinn var að hefjast og það verða mögu­lega ein­hverjar á­kvarðanir teknar þarna,“ segir Anna Sig­rún Baldurs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri skrif­stofu for­stjóra Land­spítalans, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, sagði fyrr í dag að hann væri ekki búinn að taka saman til­lögur um hertar að­gerðir því hann biði enn eftir því að heyra hvernig staðan er á spítalanum.

„Þetta er auð­vitað ekki bara spítalinn, þetta er allt heil­brigðis­kerfið en við erum auð­vitað stór hluti þess,“ segir Anna Sig­rún.

Anna Sigrún Baldursdóttir segir að erfiðust sé staðan á gjörgæslunni.
Mynd/Landspítalinn

Senda sjúklinga á gjörgæslu fyrir norðan

Hún segir að þyngsti róðurinn á spítalanum sé á gjör­gæslunni og það sé ekki bara vegna Co­vid heldur einnig vegna, til dæmis, slysa og ó­happa hjá ferða­mönnum, bæði inn­lendum og er­lendum.

Hún segir að til að bregðast við þessu sé unnið með gjör­gæslunni á Akur­eyri og þau séu byrjuð að senda sjúk­linga þangað.

„Vandinn snýr einkum að gjör­gæslunni en að öðru leyti, eins og staðan er, teljum við okkur ráða við venju­legar Co­vid-inn­lagnir eins og staðan er nú,“ segir Anna Sig­rún.

Fjórir af fimm í öndunarvél bólusett

Alls eru núna 32 inni­liggjandi vegna Co­vid á spítalanum, þar af eru átta á gjör­gæslu og fimm af þeim í öndunar­vél.

Um 40 prósent þeirra sem eru inni­liggjandi eru bólu­sett. Af þeim átta sem eru á gjör­gæslu eru fimm bólu­sett og af þeim fimm sem eru í öndunar­vél eru fjórir bólu­settir. Meðal­aldur sjúk­linga sem er lagður inn er 65 ára.