Búast má við því að talsverður hiti sé á fundi umhverfis- og samgöngunefndar sem hófst klukkan níu í morgun. Nefndin hefur verið nær óstarfhæf eftir að Bergþór Ólason, formaður nefndarinnar og þingmaður Miðflokksins, sneri aftur eftir tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum eftir Klaustursmálið.
Minnihlutinn í þinginu vill Bergþór úr forystu nefndarinnar en tillögu þess efnis var vísað frá í síðustu viku. Þeir sem kusu með frávísuninni sögði að ekki væri um að ræða stuðningsyfirlýsingu við Bergþór heldur hefði þetta verið gert þar sem ekki var búið að ákveða arftaka.
Minnihlutinn hyggst tefla fram Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmanni Viðreisnar, sem formanni nefndarinnar en til þess þurfi stuðning meirihlutans.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði í færslu á Facebook í gær meirihlutinn ætli sér að refsa stjórnarandstöðunni fyrir gjörðir Miðflokksmanna með því að gera Jón Gunnarsson að formanni nefndarinnar. Jón sagði við RÚV í gær að það væri af og frá að slíkt væri ákveðið.
Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins, náði myndunum sem hér fylgja frá því í morgun þegar nefndarmenn mættu á fundinn.


