Búast má við því að tals­verður hiti sé á fundi um­hverfis- og sam­göngu­nefndar sem hófst klukkan níu í morgun. Nefndin hefur verið nær ó­starf­hæf eftir að Berg­þór Óla­son, for­maður nefndarinnar og þing­maður Mið­flokksins, sneri aftur eftir tveggja mánaða leyfi frá þing­störfum eftir Klausturs­málið. 

Minni­hlutinn í þinginu vill Berg­þór úr for­ystu nefndarinnar en til­lögu þess efnis var vísað frá í síðustu viku. Þeir sem kusu með frá­vísuninni sögði að ekki væri um að ræða stuðnings­yfir­lýsingu við Berg­þór heldur hefði þetta verið gert þar sem ekki var búið að á­kveða arf­taka. 

Minni­hlutinn hyggst tefla fram Hönnu Katrínu Frið­riks­son, þing­manni Við­reisnar, sem for­manni nefndarinnar en til þess þurfi stuðning meiri­hlutans. 

Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir, þing­maður Pírata, sagði í færslu á Face­book í gær meiri­hlutinn ætli sér að refsa stjórnar­and­stöðunni fyrir gjörðir Mið­flokks­manna með því að gera Jón Gunnars­son að for­manni nefndarinnar. Jón sagði við RÚV í gær að það væri af og frá að slíkt væri á­kveðið.

Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins, náði myndunum sem hér fylgja frá því í morgun þegar nefndarmenn mættu á fundinn.