Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra eru nú stödd í Bandaríkjunum þar sem þau funda með stórfyrirtækjum í tækniiðnaði ásamt íslenskri sendinefnd.
Þetta kemur fram á heimasíðu menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Markmið ferðarinnar er að sýna forsvarsmönnum fyrirtækjanna fram á mikilvægi þess að íslensk tunga eigi sinn sess í þróun á nýjustu máltæknilausnum svo unnt verði að tala íslensku við tölvur og tæki og tryggja þannig framtíð í stafrænum heimi. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir spennandi tíma fram undan.
„Við erum saman í sókn fyrir íslenskuna. Að tryggja stafræna framtíð hennar kallar á breiða samvinnu og þegar hafa unnist áfangasigrar í gegnum máltækniverkefni stjórnvalda með virkri þátttöku almennings, vísindafólks og frumkvöðla, segir Lilja.
Þá hafi tölvufyrirtækið Apple gefið það út að fá ríki séu komin jafn langt og Ísland í að þróa máltækni fyrir tungumál sitt.
„Það sýnir okkur að við erum á réttri leið. Allir þeir sem koma að verkefninu, allt frá hugbúnaðarverkfræðingum til málvísindafólks, á mikið hrós skilið,“ segir ráðherra.