Lyfja­stofnun Evrópu, EMA, og sér­fræðingar um bólu­efni hjá Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnuninni, WHO, funda í dag um bólu­efni AstraZene­ca vegna til­kynninga um blóð­tappa í kjöl­far bólu­setningar en þó nokkur lönd í Evrópu, til að mynda Ís­land, hafa hætt að nota bólu­efnið tíma­bundið vegna málsins.

Gert er ráð fyrir að Lyfja­stofnun Evrópu muni gefa út til­mæli vegna bólu­efnisins næst­komandi fimmtu­dag og þar með á­kveða hvað verður um bólu­efnið til lengri tíma litið. Þau hafa þó gefið það út að það sé hægt að nota bólu­efnið á­fram þar sem á­vinningurinn af bólu­setningu er meiri en á­hættan.

Segja að ekki sé um tengsl að ræða

Um það bil 17 milljón manns hafa þegar fengið bólu­efnið í Bret­landi og í Evrópu en AstraZene­ca greinir frá því að fram til í síðustu viku hafi færri en 40 til­felli blóð­tappa verið til­kynnt. Þrátt fyrir á­kvörðun á­kveðinna landa um að hætta bólu­setningu hafa önnur lönd á­kveðið að halda á­fram.

Bresk lyfja­yfir­völd og WHO hafa gefið það út að ekkert bendi til að tengsl séu á milli bólu­setningar og til­kynninga um blóð­tappa en að því er kemur fram í frétt BBC eru til­kynningar um blóð­tappa í kjöl­far bólu­setningar færri en búist var við al­mennt í sam­fé­laginu.

Tals­maður WHO, Christian Lind­meier, greindi frá því í gær að um leið og öll gögn liggja fyrir muni þau koma því til skila til al­mennings. Þá muni þau grípa til aðgerða ef gögnin benda til þess að breytingar þurfi að vera gerðar á tilmælum þegar kemur að bóluefninu.