Í lok síðasta árs voru 1.286 börn á biðlista eftir geðheilbrigðisþjónustu hjá heilsugæslunni. Á sama tíma voru um þúsund fullorðnir á biðlista. Meðalbiðtími fyrir börn var 168 dagar og 141 dagur fyrir fullorðna.

Hanna Katrín Friðriksson, þingkona Viðreisnar, sagði á þingfundi á mánudag, þegar rætt var um geðheilsumál, að unnið hefði verið að öflugri uppbyggingu þegar kemur að sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar. Þó sagði Hanna Katrín samræmda og gagnreynda meðferð ekki fókusinn heldur styttri meðferð með það að markmiði að fækka fólki á biðlistum.

Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH), segir biðlista eftir geðheilbrigðisþjónustu vissulega langa en að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að stytta meðferðir.

„Núna erum við að byrja í þessu samtali en langir biðlistar hafa verið áhyggjuefni. Það hafa ekki verið gerðar neinar breytingar nema á skipuriti sem hefur verið einfaldað,“ segir Guðlaug. „Áherslan er lögð á faglega þjónustu, snemmbúin inngrip og forvarnir,“ bætir hún við.

Funda í dag

Í dag verður haldinn vinnufundur geðheilbrigðisþjónustu HH þar sem Guðlaug segir að meðal annars verði unnið að því að finna lausnir á því hvernig hægt sé að stytta biðlista. „Geðheilbrigðisþjónusta er miklu meira en bara sálfræðiþjónusta og við þurfum að samtvinna hana og gera þetta saman,“ segir hún.

Guðlaug segir sálfræðiþjónusta mikilvægan hlekk í grunnþjónustu heilsugæslunnar. Þörfin fyrir þjónustu sé mikil og því sé verið að skoða hvernig hægt sé að efla teymisvinnu á heilsugæslustöðvum. Margt fagfólk vinni á heilsugæslustöðvum og eðlilegt að teymisvinna sé ì stöðugri þróun