Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, ávarpaði sveitarstjóra annarra sveitarfélaga á norðurslóðum í Tromsö í gær. Ráðstefnan Arctic Frontiers hefst í borginni í dag og stendur fram á miðvikudag.

Sveitarstjórarnir hittust í gær og tóku þar með forskot á sæluna til að ræða málefni sveitarstjórnarstigsins.

„Akureyri hefur ákveðið að vera heimskautamiðstöðin á Íslandi og háskólinn hefur markaðssett sig sem heimskautaháskóla. Við teljum þetta vera málefni sem sé afar mikilvægt fyrir okkur,“ segir Ásthildur.

Ísland mun taka við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnum á þessu ári og gegna henni næstu tvö árin. Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur ríkisstjórna þeirra landa sem liggja á eða að heimskautinu. Einnig hafa sex frumbyggjasamtök aðild að ráðinu.