Gríðarlegur viðbúnaður er vegna opinberrar heimsóknar Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins í dag. Pence lendir á Íslandi um hádegi en nokkur hundruð bandarískir starfsmenn ráðherrans auk leyniþjónustumanna eru á landinu vegna heimsóknarinnar. Pence kemur hingað beint frá Írlandi þar sem hann átti fundi með þarlendum ráðamönnum.

Mun Pence funda með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í Höfða og munu þeir ræða viðskiptamál en einnig öryggis- og varnarmál. Auk fundar með utanríkisráðherra mun Pence einnig hitta Dag B. Eggertsson borgarstjóra í Höfða. Miklar öryggisráðstafanir hafa verið gerðar í kringum Höfða vegna fundarhaldanna og verður Borgartúni og mögulega fleiri götum lokað um tíma.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hittir Pence Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, klukkan tvö í dag, áður en viðskiptaþing ráðherranna hefst klukkan 14.30. Til stóð að Pence snæddi hádegisverð með forsetanum á Bessastöðum en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vannst ekki tími til að undirbúa fundinn nægilega í forsetabústaðnum og mun fundurinn mun því hafa verið fluttur og verður annaðhvort í bandaríska sendiráðinu eða í Höfða þar sem öryggisgæsla er gríðarleg.

Eins og áður hefur komið fram mun Pence hitta Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í húsnæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli í kvöld. Katrín verður þá nýkomin af þingi Norrænu verkalýðshreyfingarinnar sem hún ávarpaði.

Boðað hefur verið til baráttufundar gegn Pence á Austurvelli klukkan 17.30. í dag og þar hyggjast ýmis samtök koma saman til að mótmæla stefnu Trump-stjórnarinnar. Er yfirskrift fundarins: „Partý gegn Pence: stöndum með friði, frelsi og grænni framtíð“.