Hollvinasamtök Elliðaárdalsins munu funda með fulltrúum Reykjavíkurborgar í dag um næstu skref varðandi undirskriftasöfnun um breytingar á deiliskipulagi við Stekkjarbakka. Þar stendur til að reisa gróðurhvelfingar Aldin Biodome. Hollvinasamtökin leggjast harðlega gegn áformunum og telja að gróðurhvelfingarnar gangi á útivistarsvæðið í Elliðaárdal. Til að knýja fram íbúakosningu þurfa samtökin að safna 18 þúsund undirskriftum.

Borgaryfirvöld samþykktu fyrir jól nýtt deiliskipulag. Hollvinasamtökin hafa í rúmt ár gert kröfu um undirskriftasöfnun til að setja málið í íbúakosningu. Borgarráð samþykkti í síðustu viku erindi samtakanna um að fara í undirskriftasöfnun en ekki verður þó hægt að kjósa um deiliskipulagið sjálft heldur aðeins hvort það eigi að endurskoða það.

Í bréfi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem lagt var fram á fundinum segir að ef deiliskipulaginu verði breytt kunni að myndast bótaábyrgð. Mat skrifstofu borgarstjórnar er að ekki sé hægt lögum samkvæmt að fella deiliskipulag úr gildi með íbúakosningu.

Í bréfi Einars Páls Tamimi, lögmanns Spor í sandinn ehf. sem stendur að uppbyggingu Aldin Biodome, til borgarráðs var óskað eftir að beiðninni um undirskriftasöfnun yrði hafnað á grundvelli þess að búið sé að taka stjórnvaldsákvörðun. Er bent á að staðsetningin við Stekkjarbakka hafi verið hugmynd skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar en upphaflega átti að reisa gróðurhvelfingarnar í Laugardal.

Vigdís

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins

Einar Páll segir jafnframt að ef svo færi að deiliskipulaginu yrði breytt til að ekki yrði hægt að reisa gróðurhvelfingarnar við Stekkjarbakka væri borgin bótaskyld. Fulltrúar minnihlutans hafa lagst harðlega gegn áformunum. Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, segir að allt tal um bótaskyldu sé hótun. „Hótun sem er byggð á sandi. Þetta er bara vilyrði um lóð,“ segir Vigdís. „Ég undrast að Hollvinasamtökunum hafi verið sagt í febrúar í fyrra að of snemmt væri að senda inn erindi um undirskriftasöfnun, en núna þegar allt er um garð gengið þá sé það of seint. Hvaða stjórnsýsla er þetta?“

Í bókun Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata á fundi borgarráðs er því alfarið hafnað að um sé að ræða einhvers konar hótun. Einungis sé verið að fylgja lögum um íbúakosningar, því sé Hollvinasamtökunum boðið á fund með fulltrúa borgarinnar til að fá leiðbeiningar um undirskriftasöfnunina.

„Í leiðbeiningunum um hvernig best sé að aðhafast til að varast formgalla á undirskriftasöfnuninni felst engin hótun um skaðabótaskyldu enda er bara verið að veita upplýsingar um málið og mögulegar afleiðingar samkvæmt lögfræðilegri ráðgjöf,“ segir í bókuninni.

Halldór Páll Gíslason, formaður Hollvinasamtakanna, setur spurningarmerki við að ekki megi setja sjálft deiliskipulagið í íbúakosningu, það hafi legið fyrir af hálfu samtakanna að þau hygðust efna til undirskriftasöfnunar löngu áður en deiliskipulagið var samþykkt. „Við sjáum hvernig fer á fundinum,“ segir Halldór. „Að öllu óbreyttu munum við byrja að safna undirskriftum í lok mánaðarins.“