Fundur Flugvirkjafélags Íslands og samninganefndar ríkisins (SNR) hófst nú fyrir skemmstu hjá ríkissáttasemjara. Áætlað er að fundurinn standi til klukkan hálf sex.
Á miðnætti verður þyrla Landhelgisgæslunnar ekki til taks í að minnsta kosti tvo sólarhringa vegna verkfalls flugvirkja. Fréttablaðið hefur ekki náð tali af Guðmundi Úlfari Jónssyni það sem af er degi.
Ásgeir Jónsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við blaðið að engin útköll hafi borist gæslunni í dag. Hann sagði í gær stöðuna vera grafalvarlega.
„Undanfarnar vikur höfum við haft eina þyrlu til taks, TF-GRÓ. Við höfum lagt allt kapp á það að hún sé útkallshæf og fær til þess að sinna neyðarþjónustu. En nú liggur fyrir að á miðnætti þarf hún að fara í reglubundna skoðun sem tekur að lágmarki tvo daga. Þar af leiðandi verður engin þyrla til taks á meðan,“ útskýrir Ásgeir.
Engrar aðstoðar að vænta frá Dönum
Áður hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, tekið undir með Landssambandi slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna sem lýst hafa yfir áhyggjum af stöðunni.
„Flugvirkjum standa auðvitað til boða sömu launahækkanir og aðrir opinberir starfsmenn hafa fengið og það er miður að ekki hafi náðst að semja,“ segir hún.
Áslaug segir valkosti í stöðunni hafa verið rædda í ríkisstjórn í gær. Lög á verkfallið væru ein af leiðunum. Hún átti einnig fund með Georg Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar. „Hann ætlar að skila mér ítarlegri greiningu á langtímaafleiðingum ef þetta stendur lengur yfir,“ segir ráðherrann.
Ekki er að vænta aðstoðar á næstu dögum frá Dönum sem hafa lánað Landhelgisgæslunni þyrlur af varðskipum sínum.