Mikill gangur var í bólu­setningum í dag og hátt í tíu þúsund manns voru boðaðir í sprautu með bólu­efni Pfizer. Blaða­maður Frétta­blaðsins var einn þeirra sem voru bólu­settir í Laugar­dals­höll í dag og varð vitni að því þegar maður féll í yfir­lið skömmu eftir að hann hafði verið bólu­settur.

Að­eins nokkur augna­blik liðu á milli þess sem maðurinn lyppaðist niður í sæti sínu og þar til sjúkra­liðar voru komnir til að að­stoða hann. Fótum mannsins var lyft upp og honum gefið vatn og hafði maðurinn orð á því að hann hefði „alveg dottið út“.

Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Fréttablaðið/Ernir

Nokkur sambærileg tilvik í dag

Að sögn Ragn­heiðar Óskar Er­lends­dóttur, fram­kvæmda­stjóra hjúkrunar hjá Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins, gerist það alltaf annað slagið fólk falli í yfir­lið í bólu­setningu.

„Þetta gerist alltaf annað slagið en það er ekki al­gengt. Mér skilst samt að það hafi verið nokkur til­vik í dag en þetta er alls ekki al­gengt,“ segir Ragn­heiður.

Hún segir slíkt yfir­leitt or­sakast af stressi eða kvíða vegna bólu­setningarinnar og fólk sé oftast fljótt að jafna sig. Í bólu­setningar­mið­stöðum séu alltaf til staðar sjúkra­horn þar sem hægt er að hlúa að fólki og gefa því hressingu eða lyf ef þess þarf.

„Þetta telst ekki til al­var­legra til­vika og þetta eru ekki þessi of­næmis­við­brögð sem við erum meira á tánum yfir. Það eru al­var­legri við­brögð, þá þurfum við að gefa lyf og annað. Þetta er meira bara þannig að fólk jafnar sig,“ segir Ragn­heiður að lokum.