Carri­e Lam, æðsti stjórnandi Hong Kong, full­yrðir að ný öryggis­lög komi ekki til með að skerða réttindi eða frelsi íbúa sjálf­stjórnar­héraðsins og hét því að ríkis­stjórn hennar myndi vinna náið með yfir­völdum í Peking til að ljúka lög­gjöfinni sem fyrst. Búist er við að lögin verði inn­leidd í septem­ber.

Lögin voru kynnt að hluta í síðustu viku og leiddi það til fjöl­mennra mót­mæla í fyrsta sinn í marga mánuði eftir að lýð­ræðis­sinnar mót­mæltu um­deildu fram­sals­frum­varpi harð­lega í héraðinu í fyrra.

Að því er kemur fram í frétt Reu­ters um málið brutust fagnaðar­læti út innan kín­verska þingsins á Tianan­mentorgi í Peking þegar lögin voru sam­þykkt en alls kusu 2.878 með lögunum. Aðeins einn kaus gegn lögunum og voru sex fjarverandi.

Löggjöfin gagnrýnd harðlega

Lögin fela í sér bann við and­ófi og niður­rifs­starf­semi í garð kín­verskra stjórn­valda og eiga þau að koma í veg fyrir fjöl­menn mót­mæli. Þrátt fyrir að fjöl­mörg ríki heims hafi gagn­rýnt lög­gjöfina hafa kín­versk stjórn­völd í­trekað haldið því fram að lög­gjöfin muni ekki hafa á­hrif á sjálf­stjórn Hong Kong.

Þrátt fyrir lof­orð yfir­valda eru lýð­ræðis­sinnar von­sviknir og halda því fram að sjálfs­stjórn héraðsins sé horfin. Þá hafa Banda­ríkin, Bret­land, Kanada, Ástralía og Evrópu­sam­bandið komið á­hyggjum sínum á fram­færi en málið mun að öllum líkindum ógna öllum við­skiptum í Hong Kong.

Donald Trump Banda­ríkja­for­seti hefur heitið því að Banda­ríkin muni grípa til að­gerða og er búist við að hann muni til­kynna að­gerða­á­ætlun fyrir lok vikunnar en um 1300 Banda­rísk fyrir­tæki eru með að­setur í héraðinu.