Fulltrúar sendinefndar frá Úrvinnslustjóði, Íslenska gámafélaginu og Terra segja í skýrslu að lítill hluti plastúrgangsins sem nú er á starfs­svæði Påryd Bildemon­tering KB (áður Webbo Sveri­ge KB) í Kalmar í Sví­þjóð sé frá Íslandi.

Fulltrúarnir heimsóttu svæðið í janúar á þessu ári og komust að því að á svæðinu er að finna plastúrgang sem er blanda af plastúrgangi frá Ís­landi og Sví­þjóð. Í skýrslu um heimsóknina kemur fram að plastið sé að mjög litlu leyti frá Ís­landi, lík­lega einungis um 1,5 prósent af um það bil 2.700 tonnum á svæðinu í heild.

Að mati full­trúa sveitar­fé­lagsins er ó­um­deilt að út­flutnings­aðilar plast­úr­gangsins frá Ís­landi til Sví­þjóðar fylgdu öllum gildandi reglum þar. Þetta kom allt fram í vett­vangs­skoðun sem fulltrúar Íslenska gámafélagsins, Terra og Úrvinnslusjóðs fóru í janúar

Úr­vinnslu­sjóður vinnur nú að breytingum á skil­málum fyrir þjónustu- og ráð­stöfunar­aðila sem ætlað er að tryggja enn betur rekjan­leika úr­gangs frá Ís­landi og rétta og tafar­lausa ráð­stöfun.

Þetta kemur allt fram í til­kynningu um málið en þar segir að þetta sé sam­eigin­legt mat full­trúa frá Úr­vinnslu­sjóði, Terru um­hverfis­þjónustu, Ís­lenska Gáma­fé­laginu, endur­vinnslu­fyrir­tækinu Swerec, flutninga­fy­ri­tækinu JIRAB, sveitar­fé­laginu Kalmar Kommun og starfandi heil­brigðis­full­trúa í sveitar­fé­laginu, sem skoðuðu sam­eigin­lega geymslu­svæðið þann 27. janúar síðast­liðinn.

Það er ömur­legt að sjá plastið þarna

„Maður er aldrei á­nægður með niður­stöðu þar sem maður sér farið með fjár­magns eins og maður sá þarna. En ég var á­nægður að því leytinu til að maður sá í fljótu bragði að lítil magn af þessu plasti var frá Ís­landi. Það er auð­vitað stóra málið,“ segir Jón Þórir Frantz­son hjá Ís­lenska Gáma­fé­laginu en hann er einn þeirra sem var í ís­lensku sendi­nefndinni.

Hann segir að í sam­tali nefndarinnar við starfs­menn og full­trúa sveitar­fé­lagsins hafi orðið ljóst að það var verið að fylgja reglum en að það breyti því ekki að það sé leiðin­legt að plastið sé þarna enn.

„Það er ömur­legt að sjá plastið þarna og það er engin spurning að þetta eru þrjú þúsund tonn af plasti sem eru þarna í reiði­leysi,“ segir Jón Þórir.

Mynd sem var tekin í vettvangsheimsókninni í janúar.
Mynd/Aðsend

Baggað í vél sem ekki er til á Íslandi

Jón segir að þeir hafi séð það í fljótu bragði að ekki hafi verið að ræða bagga frá Ís­landi, heldur hafi plastið farið í verk­smiðju þar sem það var flokkað og baggað aftur.

„Það er ekki til böggunar­vél á Ís­landi sem baggar eins og þessir baggar voru. Þú sást kannski í tíunda eða fimm­tánda hverjum bagga plast frá Ís­landi,“ segir Jón Þórir og að það hafi verið greini­legt hvað var hvaðan miðað við hvaða vörur þetta voru.

„En við fundum plast frá Ís­landi og það er enginn vafi á því að það eru verk­ferlar sem þarf að laga. En mér finnst gleymast í þessu að það er eitt sem er að virka og það er að plastið hefur ekki farið í urðun. Það hefur ekki gert það og gerir það ekki. Það fer í orku­nýtingu.“

Óhreyft í fimm ár

Fjallað var fyrst um málið í desember í Stundinni en þar var full­yrt að 1.500 tonn af ís­lensku plasti hefði legið ó­hreyft í um fimm ár í vöru­húsi í Sví­þjóð.

Í til­kynningu vegna málsins segir að til­gangur ferðarinnar út til Sví­þjóðar í janúar hafi verið að skoða og meta magn flokkaðs úr­gangs frá Ís­landi á staðnum, en einnig að ræða við sam­starfs­aðila til að tryggja eins vel og kostur er að allur plast­úr­gangur sem sendur er utan frá Ís­landi fari á­vallt og án ó­eðli­legra tafa í það ferli sem samið er um hverju sinni, hvort sem er brennslu til orku­nýtingar eða annara á­sættan­legra nota.

Á vett­vangi í Påryd skýrði Ulf Abra­hams­son hjá flutninga­fyrir­tækinu JIRAB frá því að 2016 hefði fyrir­tækið flutt um 1.500 tonn af plast­um­búðum frá Swerec og 1.500 tonn frá Förpacknings og Tidnings Insam­lin­gen, alls um þrjú þúsund tonn, til Webbo Sveri­ge KB í Påryd. Þá upp­lýsti starfs­maður Påryd Bildemon­tering á staðnum að fyrir­tækið hans hefði þegar flutt í burtu um 500 tonn af plasti utan­dyra í brennslu til orku­nýtingar.

Í skýrslu ís­lensku sendi­nefndarinnar sem fór út til Sví­þjóðar segir að það sé ljóst eftir skoðun á plast­úr­ganginum sem var fyrir utan hús á staðnum og í skemmunum að hann er tekinn saman og baggaður af Swerec eftir að hafa farið ígegnum flokkunar­vélar­fyrir­tækisins.

„Við það blandast saman plast frá ís­landi og öðrum aðilum. Plast frá ís­landi var að sjá i miklum minni­hluta þess plasts sem er að finna á svæðinu. Að­eins ein­staka plast­um­búð merkt ís­lenskum aðila sást á stangli í böggum inni í skemmunni og þá blandaður plasti að því virtist vera frá neyt­endum í Sví­þjóð. Úti­lokað er hins vegar að á­ætla með ein­hverri ná­kvæmni hve mikið er þarna af ís­lensku plast en ljóst að það er að­eins mjög lítill hluti af því sem þarna er,“ segir í skýrslu þeirra og svo að ef tekið væri mið af heildar­magni plast­úr­gangs sem Swerec með­höndlaði á árinu 2016, sem voru um 51.000 tonn, þá voru bók­færð 1.500 tonn hjá Úr­vinnslu­sjóði er fóru frá ís­lenskum fyrir­tækjum til Swerec.

Það gera sam­kvæmt þessu tæp þrjú prósent af heildar­magni sem Swerec með­höndlaði það árið. Stað­fest er að Swerec sendi 1.500 tonn til eftir­vinnslu í Páryd.

„Ef við gæfum okkur að það væri svipað hlut­fall af ís­lensku plasti og öðru sem Swerec tók við á árinu 2016 sem lentu í geymslunni í Páryd þá má ætla að um 45 tonn af plast­úr­ganginum frá ís­landi hefði lent þarna. Það gæti alveg verið raunin þar sem að sendi­nefndin sá ekki mikið plast í skemmunum sem rekja má til ís­lands, þó um það verði að sjálf­sögðu ekkert full­yrt,“ kemur fram í skýrslunni.

Þá kemur fram í til­kynningunni að það sé ljóst að margt hafi gengið á en for­svars­menn fyrir­tækisins létu sig hverfa árið 2017 eftir að þeir misstu starfs­leyfið í tví­gang. Full­trúar sveitar­fé­lagsins viður­kenna að þótt svo að staðan sé þannig þá sé það þeirra hlut­verk að leysa vanda­málið.