Fullvinnsla á lífrænum úrgangi í moltu í Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi, GAJA, hefur verið stöðvuð tímabundið eftir að myglugró fundust í límtréseiningum í þaki og burðarvirki húsnæðisins. Fram kemur í tilkynningu frá Sorpu að myndun myglugróa sé hluti af moltugerðarferli þar sem lífrænn úrgangur brotnar niður og eðlilegt að mygla finnist við vinnslu. Stöðvunin hefur ekki áhrif á getu GAJU til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá lífrænum úrgangi með söfnun metangass.

Bygging GAJA fór langt fram úr kostnaðaráætlun og varð til þess að framkvæmdastjóri steig til hliðar. Kom svo í ljós að markmiðin um að breyta almennum heimilisúrgangi í moltu voru of háleit og hefur Sorpa því breytt um stefnu hvað varðar flokkun. Upplýsingagjöf til stjórnar var verulega ábótavant og jafnvel villandi á byggingartíma. Það kom meðal annars fram í skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar sem núverandi stjórn kallaði eftir.

Sorpa segir að búið sé að fá óháða sérfræðinga til að gera úttekt á umfangi vandans og leggja fram tillögur til úrbóta.

„Öryggi starfsmanna skiptir okkur öllu máli og við vildum bæði tryggja það og hefjast tafarlaust handa við að stemma stigu við mygluvextinum. GAJA er einn hlekkur í að innleiða hringrásarhagkerfið á höfuðborgarsvæðinu og það er því mikilvægt að stöðin starfi hnökralaust og nái vinnslumarkmiði sínu,“ segir segir Líf Magneudóttir, formaður stjórnar SORPU. „Þessi myglugró sem hafa greinst vekja upp spurningar um hvernig staðið var að hönnun og efnisvali fyrir húsnæði hennar. Við í stjórn SORPU höfum falið framkvæmdastjóra að leita skýringa á þessu sem allra fyrst.“