„Ef það stendur í kosningalögum að yfirkjörstjórn eigi að hafa þennan háttinn á þá er ekki til umræðu annað en að gera það,“ segir Indriði I. Stefánsson, varabæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.

Indriði lagði fram fyrirspurn í bæjarráði Kópavogs í gær vegna vinnubragða yfirkjörstjórnar við sveitarstjórnarkosningarnar í maí. Yfirkjörstjórnin hafi ekki fylgt 119. grein kosningalaga um að tilkynna kjörnum bæjarfulltrúum og varabæjarfulltrúum um kjörið.

„Afleiðingarnar eru fyrst og fremst þær að nýkjörnir fulltrúar lesa formlega um sitt kjör í fjölmiðlum frekar en að fá það frá yfirkjörstjórn,“ útskýrir Indriði.

Eftir að Fréttablaðið hafði rætt við Indriða um málið í gær bárust honum upplýsingar um það frá yfirkjörstjórn að hann hefði náð kjöri sem varabæjarfulltrúi í maí.