Hlynur Jóhanns­son, full­trúi Mið­flokksins í bæjar­stjórn Akur­eyrar, segir sjálf­sagt að prófa að leggja á bann við lausa­göngu katta. Hins vegar sé ekkert því til fyrir­stöðu að draga bannið til baka ef það reynist illa.

„Þetta er búið að vera í um­ræðunni í ansi mörg ár en aldrei neitt gerst, virðist vera mikil hræðsla í bæjar­stjórnum að gera eitt­hvað í svona málum. Svo var þetta tekið upp á þessum fundi og eitt leiddi af öðru og þá kom bara í ljós að það var meiri­hluti fyrir því að banna lausa­göngu katta,“ segir Hlynur.

Hann skilur þó um­ræðuna sem skapast hefur í kjöl­far á­kvörðunar bæjar­stjórnarinnar: „Mér er mjög annt um ketti og ég hefði alveg þess vegna geta fallist á að þetta yrði á­fram ó­breytt en mér fundust vera fleiri rök með banninu.“

Málið er hins vegar ekki búið. Það á enn eftir að á­kveða fram­kvæmd bannsins og hugsan­leg sektar­á­kvæði: „Mér sýnist við hafa nægan tíma. Það er ýmis vinna eftir í þessu og það á bara eftir að finna út úr því í ró­leg­heitunum hvernig er best að vinna úr þessu og fram­fylgja,“ segir Hlynur.

Það kæmi honum ekki á ó­vart ef fleiri sveitar­fé­lög myndu fylgja for­dæmi Akur­eyrar.

Bæjar­stjórnar­fundirnir séu leik­rit

Hlynur segir ekkert því til fyrir­stöðu að draga bannið til baka ef illa fer, til dæmis ef mögu­legur músafar­aldur myndi blossa upp eins og nefnt hefur verið að geti gerst. „Það er þá alla­vega búið að prófa þetta og sjá hvað gerist. Við eigum ekki að vera hrædd að prófa hluti og sjá hvert það leiðir okkur.“

Hilda Jana Gísla­dóttir, bæjar­full­trúi Sam­fylkingarinnar, greiddi at­kvæði gegn til­lögunni og gagn­rýndi hana fyrir að hafa verið illa undir­búin. Lítil sem engin um­ræða hafi verið um til­löguna.

„Við vorum ekki búin að ræða þetta neitt ofan í kjölinn,“ segir Hlynur. „Má aldrei taka upp svona ó­vænt mál? Ég hef oft sagt að þessir bæjar­stjórnar­fundir séu svo­lítið leik­rit vegna þess að það er búið að ræða þetta allt saman annars staðar og svo segja menn þetta aftur uppi í pontu til þess að koma því út í loftið. Ef það mega aldrei koma svona smá mál sem er að­eins tekist á um án þess að allt fari á hliðina þá getum við alveg eins hætt með þessa bæjar­stjórnar­fundi. Þetta er bara sýndar­mennska.“

Þá hafi þessi mál um lausa­göngu katta oft verið rætt innan hópsins en enginn þorað að taka á þeim, að sögn Hlyns.

Hyggst ekki gefa kost á sér til endur­kjörs í vor

Senn er á enda fyrsta kjör­tíma­bil Hlyns í bæjar­stjórn. Að­spurður segist hann síður reikna með því að gefa kost á sér til endur­kjörs: „Ég er frekar frá því,“ segir hann.

Þá kveðst hann ó­viss um að það fyrir­komu­lag sem nú er við lýði í bæjar­stjórn Akur­eyrar, að allir flokkar séu saman í meiri­hluta og því enginn eigin­legur minni- né meiri­hluti, sé skyn­sam­legt. „Ég held að eftir á að hyggja hefði mér ekki þótt verra að gamli meiri­hlutinn hefði haldið sínu og verið á­fram og við verið á­fram í minni­hluta, svona miðað við hvernig þetta þróaðist. En sitt sýnist hverjum þar.“

Hann reiknar síður með því að gefa kost á sér til endur­kjörs í sveitar­stjórnar­kosningunum í vor: „Ég er frekar frá því,“ segir Hlynur.