Jónína Brynjólfs­dóttir, for­seti sveitar­stjórnar Múla­þings, segir tvö lög­fræði­á­lit hafa verið lögð til grund­vallar er einum full­trúa í sveitar­stjórninni var gert að víkja af fundi og vara­maður hans kallaður inn í staðinn.

„Það var búin að koma upp til­laga um van­hæfi í þessu máli fyrr á þessu ári á sveitar­stjórnar­fundi þar sem við vorum með álit bæjar­lög­mannsins,“ segir Jónína sem kveður á­lits lög­manns Sam­bands ís­lenskra sveitar­fé­laga einnig hafa verið aflað.

Jónína Brynjólfs­dóttir, for­seti sveita­stjórnar Múla­þings.
Mynd/Aðsend

Full­trúa Mið­flokksins, Þresti Jóns­syni, var vikið af fundinum vegna van­hæfis er kom að aðal­skipu­lags­breytingu vegna Fjarðar­heiðar­ganga og með at­kvæðum allra nema Þrastar sjálfs.

„Vegna vensla teljum við að Þröstur sé van­hæfur og lög­fræði­á­litin styðja það,“ segir Jónína.

Sjálfur sagði Þröstur um að ræða pólitískt of­beldi sem ætti sér engin for­dæmi á Ís­landi. Sagðist hann vera með álit lög­manns sem stað­festi að hann sé ekki van­hæfur og telur að þetta sé brot á mál­frelsi.

„Það er búið að svipta mann mál­frelsi. Yfir­leitt er maður ekki víttur í pontu nema maður sé með dólgs­læti,“ sagði Þröstur í við­tali á vef Frétta­blaðsins í gær.

Jónína segir að það sé í raun ekkert ó­eðli­legt í þessu til­viki.

„Til þess að tryggja rétt­láta máls­með­ferð var þessi til­laga lögð til og tíu sveitar­stjórnar­menn af ellefu voru sam­þykkir því og kom vara­maður inn í hans stað úr Mið­flokknum. Það er ekkert endi­lega ó­al­gengt í minni sveitar­fé­lögum að ein­staklingar séu van­hæfir,“ segir Jónína.

„Þegar meiri­hlutinn er kominn í rök­þrot, grípur hann til slíkra ó­yndis­úr­ræða. Slíkt er al­var­leg ógn við lýð­ræðið og mál­frelsið í landinu sem er stjórnar­skrár­bundið,“ bókaði Þröstur á fundinum. Verið væri að „þagga niður skoðanir sem eru and­stæðar skoðunum meiri­hlutans“.