Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, segir tvö lögfræðiálit hafa verið lögð til grundvallar er einum fulltrúa í sveitarstjórninni var gert að víkja af fundi og varamaður hans kallaður inn í staðinn.
„Það var búin að koma upp tillaga um vanhæfi í þessu máli fyrr á þessu ári á sveitarstjórnarfundi þar sem við vorum með álit bæjarlögmannsins,“ segir Jónína sem kveður álits lögmanns Sambands íslenskra sveitarfélaga einnig hafa verið aflað.

Fulltrúa Miðflokksins, Þresti Jónssyni, var vikið af fundinum vegna vanhæfis er kom að aðalskipulagsbreytingu vegna Fjarðarheiðarganga og með atkvæðum allra nema Þrastar sjálfs.
„Vegna vensla teljum við að Þröstur sé vanhæfur og lögfræðiálitin styðja það,“ segir Jónína.
Sjálfur sagði Þröstur um að ræða pólitískt ofbeldi sem ætti sér engin fordæmi á Íslandi. Sagðist hann vera með álit lögmanns sem staðfesti að hann sé ekki vanhæfur og telur að þetta sé brot á málfrelsi.
„Það er búið að svipta mann málfrelsi. Yfirleitt er maður ekki víttur í pontu nema maður sé með dólgslæti,“ sagði Þröstur í viðtali á vef Fréttablaðsins í gær.
Jónína segir að það sé í raun ekkert óeðlilegt í þessu tilviki.
„Til þess að tryggja réttláta málsmeðferð var þessi tillaga lögð til og tíu sveitarstjórnarmenn af ellefu voru samþykkir því og kom varamaður inn í hans stað úr Miðflokknum. Það er ekkert endilega óalgengt í minni sveitarfélögum að einstaklingar séu vanhæfir,“ segir Jónína.
„Þegar meirihlutinn er kominn í rökþrot, grípur hann til slíkra óyndisúrræða. Slíkt er alvarleg ógn við lýðræðið og málfrelsið í landinu sem er stjórnarskrárbundið,“ bókaði Þröstur á fundinum. Verið væri að „þagga niður skoðanir sem eru andstæðar skoðunum meirihlutans“.