Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis, gagnrýnir andvaraleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart skaðsemi áfengisneyslu hér á landi. Mótsagnir séu í áherslum og umræðu um áfengismál.

Í erindi sem Rafn flutti á ráðstefnu SÁÁ um fíknivanda í gær á Hilton Nordica, þar sem kallað er eftir auknu samstarfi milli aðila, sagði Rafn rannsóknir sýna að samfélagslegur fórnarkostnaður sem hlytist af neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu hér á landi væri 3 til 5 prósent af vergri þjóðarframleiðslu.

Á sama tíma og stjórnvöld opnuðu nýjar leiðir til að auka aðgengi að áfengi með lagabreytingum, nú síðast með því að heimila sölu beint frá framleiðendum, ykist nýgengi skorpulifrar um 10 prósent árlega og margt fleira mætti nefna um fórnarkostnaðinn.

Stór hluti krabbameina tengist ofneyslu áfengis og alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur sem veldur geigvænlegum skaða, að því er fram kom á ráðstefnunni. Þrjár milljónir manna deyja árlega vegna áfengisneyslu, langflestir í Evrópu þar sem mest er drukkið að sögn Rafns.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur lagt til við aðildarríki að þau bregðist við vaxandi meðvitund um skaðsemi drykkju. WHO hvetur lönd til að setja stefnu sem hafi að markmiði að minnka áfengisneyslu um 10 prósent.

Á sama tíma bendir Rafn á að Íslendingar auki aðgengi að áfengi sem aldrei fyrr og sé beint samband milli aukins vanda og aukins aðgengis. Frumvarp liggur fyrir Alþingi um að ÁTVR verði heimilt að selja áfengi á sunnudögum.

„Þegar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin spyr mig sem ráðgjafa íslenskra stjórnvalda hvert við stefnum, þá svara ég: Við erum ekki að standa okkur,“ sagði Rafn í erindi sínu.

Til marks um aukningu í neyslu má nefna að Íslendingar drukku um fjóra lítra af hreinu alkóhóli árið 1989 en núna átta. Á sama tíma og drykkja eykst er minna fé varið til forvarna en áður.

„Ég brýni stjórnmálamenn til að sýna hugrekki í þessum efnum. Það er ekki nóg að einblína bara á frelsi og þjónustu, við þurfum heildarmyndina,“ segir Rafn.