Fastafulltrúar og sendiherrar allra þrjátíu aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins skrifuðu undir aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar í NATO í dag. Með þessu samþykktu þeir ályktun leiðtogafundar NATO um að bjóða ríkjunum tveimur að gerast aðilar að bandalaginu.

„Þetta er sannarlega söguleg stund fyrir Finnland, fyrir Svíþjóð og fyrir NATO,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, við tilefnið. „Með 32 ríki við borðið verðum við sterkari og öruggari er við stöndum frammi fyrir hættulegri heimi,“ skrifaði hann jafnframt í færslu á Twitter-síðu sinni.

Enn eiga þing aðildarríkjanna eftir að samþykkja aðild Svíþjóðar og Finnlands. Því er enn hugsanlegt að Tyrkir, sem hafa verið Svíum og Finnum erfiðastir í inngönguferlinu, gætu beitt neitunarvaldi gegn umsókninni ef þeim þykja löndin tvö ekki koma til móts við kröfur þeirra.

Á leiðtogafundi NATO í Madríd um mánaðamótin gerðu Finnar og Svíar samning við Tyrki um að taka til greina framsal aðila sem Tyrkir gruna um tengsl við hryðjuverkasamtök. Þeirra á meðal er fólk sem Tyrkir væna um að tengjast kúrdneskum þjóðernishreyfingum og hreyfingum sem hafa verið sakaðar um aðild að valdaránstilrauninni gegn Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseta árið 2016. Stoltenberg sagðist þó ekki búat við því að neinn skipti um skoðun. „Það þurfti að taka tillit til nokkurra öryggisáhyggja. Og við gerðum það sem við gerum alltaf hjá NATO. Við fundum samhljóm.“