Full­trúa­deild Banda­ríkja­þings sam­þykkti í gær­kvöldi fjár­laga­frum­varp á fyrsta fundi nýs þings. Demó­kratar fara nú með völdin í deildinni. Í sam­þykktinni er hvergi kveðið á um ráð­stöfun fjár­muna til landa­mæra­veggs sem Donald Trump vill að rísi á landa­mærum Mexíkó og Banda­ríkjanna. 

Nær öruggt er að frum­varpið mun ekki fram að ganga þegar það verður tekið fyrir í öldunga­deild þingsins þar sem Repúblikanar fara með völdin. Mitch McConnell, leið­togi Repúblikana í öldunga­deild, segir að fjár­lögin verði ekki tekin til um­ræðu nema það sé ljóst að for­setinn styðji þau. 

Trump hyggst sjálfur ekki ætla að undir­rita nein fjár­lög þar sem ekki er minnst á fjár­mögnun múrsins við landa­mærin. Mike Pence, vara­for­seti Trumps, í­trekaði það í við­tali við Fox-frétta­stöðina í gær. 

Demó­kratar sam­þykktu með frum­varpinu í gær að fjár­magna rekstur þeirra al­ríkis­stofnana sem lokaðar hafa verið síðan fyrir jól. Stofnunum var lokað eftir að ekki tókst að koma fjárlögum í gegn þar sem gert var ráð fyrir fjár­munum til byggingar múrsins. 

Á nýju þingi full­trúa­deildar er tals­vert meiri fjöl­breytni en hefur verið fyrri ár. Til dæmis hafa aldrei verið fleiri konur þar, en þær eru nú 102 talsins. Þeirra á meðal eru 36 sem taka sæti í fyrsta sinn og 43 eru litaðar. 

Nan­cy Pelosi, úr röðum Demó­krata, tók við sem for­seti full­trúa­deildarinnar í gær og þá tók Alexandria O­casio-Cor­tez sæti, en hún er yngsta konan til að ná kjöri á þingi. O­casio-Cor­tez situr fyrir Demó­krata í New York-ríki.