Fjöldi manns lagði leið sína á stofnfund félagsins Vinir í Kópavogi sem fór fram í dag. Markmið félagsins er að skapa umræðu um skipulagsmál bæjarins.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í mánuðinum að meirihluti bæjarráðs Kópavogs hafi samþykkt samkomulag við Árkór vegna umdeidrar uppbyggingar á Fannborgarreit.

Bæjarfulltrúi sagði misráðið að ekki hafi verið hlustað á íbúa svæðisins. Óheppilegt væri að skipuleggja miðbæ í beinni andstöðu við langflesta íbúa miðbæjarins.

Frá fundinum í dag.
Mynd/Valgarður Gíslason

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, mótmælti því að ekki hafi verið hlustað á íbúa og sagði ekki rétt að langflestir á miðbæjarsvæðinu væru á móti fyrirhugaðri uppbyggingu á miðbænum.

„Það eru fjölmargir íbúar og atvinnurekendur á svæðinu sem hafa sagt að þeir séu ekki í þessum óánægjuhópi heldur séu mjög ánægðir með að það sé verið að fara að klára miðbæinn,“ sagði Ármann.

Á heimasíðu félagsins Vinir Kópavogs segir að fjölmörg nýleg dæmi sýni það að bæjaryfirvöld vinni ekki mál í samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Samráð sé til málamynda og eðlilegs jafnræðis sé ekki gætt.

„Bæjaryfirvöld veita þeim sem hyggjast hagnast fjárhagslega á lóðarréttindum heimild til að vinna beint að gerð skipulags, en sjónarmið íbúa á svæðinu og Kópavogsbúa almennt fyrir borð borin. Afleiðingin birtist sem skelfileg skipulagsmistök og dapurt mannlíf.“