Seiglurnar komu við á Horn­ströndum eftir tæpa viku af siglingu en hópurinn stefnir á að sigla í kringum landið. Á Hornströndum var bongó­blíða, að þeirra sögn, en fullt af plasti.

Skútan, sem er að­eins skipuð konum, lagði af stað þann 13. júní og kom sex dögum seinna í Hlöðu­vík. Þar tók hópurinn þátt í ár­legri rusla­hreinsuninni Hreinni Horn­strandir. Seiglurnar hafa áður tekið þátt í þeirri hreinsun árið 2014.

Í færslu hópsins á Face­book segir að um 40 tonn af rusli hafi verið hreinsuð af frið­landinu í þessum ár­legu hreinsunum. „Þrátt fyrir að Hlöðu­vík hafi verið hreinsuð áður var af nógu að taka, mest plasti og drasli sem tengist út­gerð, líka þó nokkuð af ýmis konar burstum, í­látum, stíg­vélum og öðrum skó­búnaði,“ segir í færslunni.

Land­helgis­gæslan spilar lykil­hlut­verk í því að koma ruslinu af svæðinu, segir í færslunni. „Fé­lagið og gæslan eiga hrós skilið fyrir seigluna í þessu verk­efni. Seinni partinn, eftir að hafa flutt fleiri tonn af rusli út í varð­skipið Tý, flutti gæslan lúnar Seiglur aftur um borð í Esju.“


Beina at­hygli að hafinu


Seiglurnar standa fyrir verk­efninu Kvenna­sigling 2021 þar sem hópur kvenna siglir á skútunni Esja um­hverfis landið til að vekja at­hygli á þeirri marg­þættri um­hverfis­vá sem steðjar að hafinu, eins og segir í lýsingu verkefnisins á Face­book.

Í lýsingunni segir einnig að verk­efnið stefni á að „gera konur sýni­legri í þessu um­hverfi í leik og starfi.“ Þetta er í fyrsta sinn sem skúta ein­göngu skipuð konum siglir hringinn. Eftir komuna á Horn­strandir hélt hópurinn leið sinni á­fram í átt að Trölla­skaga.