Sýningar á Kardemommubænum hefjast á ný um helgina. Tuttugu þúsund miðaeigendur bíða nú eftir að koma loks í leikhúsið.
Að sögn forstöðumanns markaðsmála Þjóðleikhússins, Jóns Þorgeirs Kristjánssonar, hefur komið á óvart að fullorðnir virðast ekki síður spenntir fyrir sýningunni en börn. Það er flóknara að raða fullorðnum í salinn vegna fjalægðartakmarkana.
Gestum er raðað í sóttvarnahólf og sýningum fjölgað svo allir miðaeigendur geti séð hið sögufræga leikrit. Nýtt bókunarkerfi er notað til að halda utan um breytingarnar og sjá til þess að allir fái að nýta sína miða.
Í gær boðaði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að nú fengju leikhúsin að taka á móti 150 gestum í stað 100.
„Við stóðum frammi fyrir þeirri skemmtilegu áskorun að raða 20 þúsund manns í sæti á Kardemommubæinn, en það er sá fjöldi sem hafði tryggt sér miða á sýninguna fyrir samkomubann. Til að leysa þetta vandamál þá hönnuðum við sérstakt kerfi til þess fólk geti skráð fjölda barna og fullorðinna í hverri pöntun,“ segir Jón Þorgeir.
Tveir fullorðnir geta verið í hverjum gestahóp eins og sakir standa.
„Fjöldatakmarkanir settu vissulega stórt strik í sýningaáætlunina hjá Þjóðleikhúsinu. Það verður þónokkur vinna hjá starfsfólkinu í miðasölunni að raða í sætin. Það flækir málin að þurfa að passa upp á að gestahópar séu saman og að einungis tveir fullorðnir geti verið í hverjum hóp,“ segir Jón Þorgeir.
Hann segir það hafa komið aðstandendum leikhússins skemmtilega á óvart hve margir fullorðnir hafa áhuga á að mæta á sýninguna. Talsverður fjöldi pantana innihaldi til að mynda engin börn.
„Við höfum reyndar séð það okkur til mikillar ánægju að fullorðið fólk er ekki síður spennt fyrir Kardemommubænum en börn því talsvert er um það að fullorðið fólk fari án barna eða fullorðnir séu umtalsvert fleiri í hverri pöntun en börn,“ segir hann
„Það staðfestir það sem allir vissu kannski fyrir, að allir eru tilbúnir að verða börn á nýjan leik, að minnsta kosti í tvo tíma á Kardemommubænum.“
Leikhúsið áætlar að allir miðaeigendur hafi færi á að mæta á sýninguna í síðasta lagi í september. Opnuð hefur verið sérstök upplýsingasíða, kardemommubaerinn.is, þar sem miðaeigendur geta fundið sína bókun og séð hvar hún er í röðinni.