Þrír embættismenn og fullorðin börn Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, verða vernduð af leyniþjónustu Bandaríkjanna næstu sex mánuði. Þetta hefur Washington Post eftir heimildarmönnum sínum en fráfarandi forseti getur skipað leyniþjónustunni að vernda hvern sem er.
Að því er kemur fram í frétt Washington Post eiga fullorðin börn forsetans ekki rétt á verndinni samkvæmt lögum eftir að embættistíðinni lýkur. Donald og Melania Trump eiga þó rétt á vernd til lífstíðar og Barron Trump þangað til að hann verður sextán ára. Þá eiga Mike og Karen Pence rétt á vernd næstu sex mánuði.
Hvorki Hvíta húsið né leyniþjónustan vildu svara fyrir málið en þrátt fyrir að það sé grundvöllur fyrir framlengingu verndarinnar er það mjög óvanalegt að það sé gert fyrir fullorðna einstaklinga. Fyrrum forsetar hafa til að mynda aðeins framlengt vernd barna sinna sem voru þá á háskólaaldri.
Kostnaðarsöm vernd
Samkvæmt fyrirskipun Trumps munu börn hans, þau Ivanka, Donald, Eric, og Tiffany, sem og makar Ivönku og Eric, ekki þurfa að greiða fyrir öryggisgæsluna næstu sex mánuði. Barnabörn Trumps munu einnig njóta góðs af verndinni í gegnum foreldra sína.
Þá mun hið sama gilda um Steve Mnuchin, fyrrverandi fjármálaráðherra, Mark Meadows, fyrrverandi starfsmannastjóra Hvíta hússins, og Robert O‘Brien, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa. Ekki er víst hvort að fordæmi sé fyrir því að vernd embættismanna sé framlengd.
Vernd leyniþjónustunnar er verulega kostnaðarsöm en skattgreiðendur koma til með að greiða fyrir hana. Áætlað er að verndin muni kosta skattgreiðendur milljónir dala.
Trump extended Secret Service protection for 13 members of his family as he left office https://t.co/RkkQbxuPZu
— The Washington Post (@washingtonpost) January 20, 2021