„Fyrstu viðbrögð voru mikill léttir,“ segir Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar við Fréttablaðið. Hæstiréttur staðfesti nú rétt í þessu dóm Landsréttar um að lögbann sem lagt var á fréttaflutning upp úr gögnum úr þrotabúi Glitnis, væri ólögmætt. Um fullnaðarsigur er að ræða fyrir fjölmiðlana Stundina og Reykjavík Media.

Glitnir HoldCo höfðaði mál gegn fjölmiðlunum vegna fréttaflutnings upp úr gögnunum, þar á meðal um viðskipti Bjarna Benediktssonar, nú formanns Sjálfstæðisflokksins, fyrir hrun.

Glitnir HoldCo fór fram á lögbann á grundvelli ákvæða um bankaleynd. Lögbannið var sett á 13. október 2017, rétt fyrir Alþingiskosningar. Lögbannið hafði verið dæmt ólögmætt í héraði og Landsrétti, áður en til kasta Hæstaréttar kom.

Jón Trausti segir að það sé ekki notalegt fyrir fjölmiðlafólk að geta staðið frammi fyrir því þurfa að standa undir málkostnaði í dómsmáli sem fer í gegn um allt réttarkerfið. Hann segir hins vegar að dómurinn hafi gert Glitni HoldCo að greiða allan málskostnað en nú verði að koma í ljós hvort sú upphæð dugi fyrir málsvörninni í gegn um þessi þrjú dómsstig. Hún hafi verið mjög kostnaðarsöm. „Það yrði súrt og ranglátt að sitja uppi með kostnað, verandi saklaus af öllum ásökunum.“ 

Í dómsorði kemur fram að Stundinni og Reykjavík Media fá 1,2 milljónir króna hvor fjölmiðill til að standa straum af málskostnaði.

Hann segist spyrja sig hvað nú taki við. „Nú er búið að draga okkur í gegn um réttarkerfið í 522 daga, ranglega í rauninni. Á bara að segja „úps og bless“? Á þessu bara að ljúka svona?


Forsvarsmenn fjölmiðlanna tveggja sitja nú, þegar þetta er skrifað, á fundi og eru að fara yfir dóminn. „Það sem við höfum viljað gera er að framkalla breytingar á þessu kerfi þannig að ekki sé hægt að beita ólögmætum valdbeitingum gegn fjölmiðlum aftur,“ segir Jón Trausti.