Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, segir að það sé full á­stæða til að herða sóttvarnaaðgerðir svo hægt sé að ná tökum á veirunni aftur.

„Ég held það sé full á­stæða til að fara í miklu harðari að­gerðir. Því það hefur ekki tekist að ná stjórn á þessu með þeim að­gerðum sem er í gangi núna,“ segir Kári í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, mun leggja til nýjar sóttvarnaaðgerðir fyrir ríkis­stjórnina á næstu dögum en Kári segist ekki vita hvað sé í til­mælum Þór­ólfs.

„Okkur tókst að ná þessu niður í vor með því að loka ansi hraust­lega og okkur hefur ekki tekist það með þessum hálf­kæringi sem er í gangi núna. Þannig ég held það væri allt í lagi að reyna þetta í tvær til þrjár vikur og sjá hvort okkur tekst ekki að ná þessu á svipaðan stað og var í maí­mánuði í vor,“ segir Kári.

Veiran smitar meira en áður

Frétta­blaðið greindi frá því í gær­kvöldi að dauðs­föllum vegna CO­VID-19 hafi fjölgað um 54% á einni viku í Evrópu. Spurður um hvort þessi tegund af veirunni sem er í gangi núna sé ban­vænni en sú fyrri, segir Kári svo ekki vera. Líkur eru hins vegar á að hún sé meira smitandi.

„Þessi veira, með þessa stökk­breytingu, sem við rekjum til Frakk­lands en byrjaði hins vegar á Spáni og dreifist út þaðan. Það virðist eins og hún smiti meira en veiran gerir al­mennt,“ segir Kári.

„Á­stæðan fyrir því að við erum að þeirri skoðun er sú að fyrir svona fjórum vikum fannst hún ekki í Bret­landi en nú er hún 70% af veirum sem eru rað­greindar þar. Það sannar ekki að hún smiti meira en það bendir til þess, en þó ekki sannað.“

Veiran sem er í gangi núna á rætur sínar að rekja til Spánar en annað af­brigði veirunnar sem er í gangi hér á landi kemur frá Pól­landi. Kári segir hins vegar að fjölmörg af­brigði veirunnar hafa vera greinast hér­lendis.

„Það sem er í gangi núna er næstum allt, sem á rætur sínar í það sem við köllum frönsku veiruna. Það er eitt­hvað sem við höfum verið að greina af þessari pólsku eða pólska ­af­brigðið, en það er bara fólk sem hefur verið að koma frá Pól­landi og kemur fram í seinni skimun,“ segir Kári.