Mikil hætta er á utanaðkomandi mengun þegar afla er landað úr veiðiskipum og við flutning hans. Miðað við myndir eftirlitsmanna Matvælastofnunar vantar á sumum stöðum mikið upp á að farið sé að reglum um að halda körum lokuðum, hreinum og óskemmdum.

Víða hefur orðið vart við óhreinindi í fiskikörum og berast Matvælastofnun reglulega kvartanir frá bæði sjómönnum og fiskkaupendum um óhrein og skemmd löndunarkör. Á vef Mast eru birtar myndir af körum sem eru í notkun en ættu alls ekki að vera það. Eftirlitsmenn MAST tóku myndirnar á ólíkum höfnum landsins. Um er að ræða kör sem eru í notkun sem fiskikör, ekki afskrifuð kör sem tekin hafa verið afsíðis.

Mynd/Matvælastofnun

Körin eru mjög útsett fyrir fugladriti og verja þarf landaðan afla sérstaklega fyrir því en einnig er bent á að fiskur sem af slysni fellur úr kari á bryggjuna sé ekki hæfur til manneldis. Þá er óæskilegt að nota fiskikör fyrir annað en matvæli.

Í veiðiflotann hafa nú bæst við strandveiðibátar. Strandveiðar eru stundaðar um allt land yfir sumarið og fer löndun fram á höfnum hringinn í kringum landið. Löndun á fiski yfir sumarið er því umfangsmikil. Hreinlæti og kælingu frá veiði, þar til fiskurinn fer á borð neytenda er að augljósum ástæðum mjög mikilvæg.