Fuglar verpa nú að jafnaði nærri mánuði fyrr en þeir gerðu fyrir einni öld. Loftslagsbreytingum er um að kenna samkvæmt rannsóknum að því er segir í frétt El País.

Í lok nítjándu aldar komst í tísku meðal fuglaáhugafólks í Mið-Evrópu, á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum að leita að hreiðrum og stela úr þeim eggjum. Slíkt væri að sögn El País óhugsandi í dag auk þess sem það er hreinlega bannað í mörgum löndum.

En þetta gamla áhugamál gerir vísindamönnum nú kleift að rannsaka hvenær eggjunum var verpt áður og bera saman við nútímann.

Bent er á í El País að hnattræn hlýnun valdi ógrynni náttúrufyrirbrigða; tré laufgist fyrr, skordýr séu fyrr á sveimi og farfuglar fyrr á ferðinni. Spurningin sé hversu mikil áhrifin séu. Til að svara því þurfi gagnagrunn sem nái umtalsverðan árafjölda aftur í tímann.

Vísindamenn við Field-náttúrusögusafnið í Chicago hafa rannsakað þessa hluti allt aftur til ársins 1872. Safnið á þúsundir af eggjum allt frá síðari hluta nítjándu aldar fram á fyrsta þriðjung tuttugustu aldar, að sögn El País. Söfnunarhefð var svo útbreidd að yfirvöld þurftu að beita banni til að bjarga mörgum fuglategundum frá því að deyja út.

Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur og prófessor hjá Háskóla Íslands, segir breytingu á varptíma ekki hafa verið skoðaða mikið hérlendis
Mynd/Aðsend

Fuglafræðingurinn John Bates, stjórnandi Field-safnsins, bendir El País á hversu nákvæmir gömlu safnararnir hafi verið. „Þeir voru góðir í að fylla út gagnaskýrslur með upplýsingum í smáatriðum um hvenær eggin fundust,“ segir Bates. Út frá því hafi með aðstoð líffræðinnar verið hægt að reikna nákvæmlega út hvenær fyrstu eggjunum var verpt.

El País segir Bates og fuglafræðinga frá öðrum stofnunum hafa notað gögnin til að staðfesta þann grun að varptíminn hefði færst fram eins og óttast var. Gögnin hafi meðal annars verið borin saman við gögn sem stofnanirnar öfluðu sjálfar frá árinu 1980. Niðurstöðurnar leiði í ljós að fyrir 72 fuglategundir sem unnt var að bera saman hafi varpið færst fram um 25,1 dag að meðaltali hjá þriðjungi tegundanna. Hjá sumum tegundanna hafi varptíminn jafnvel færst fram um 50 daga. Aðeins ein tegund, ameríski svartþrösturinn, verpur nú síðar en áður.

Fram kemur í El País að þessi þróun sé nú ráðandi á norðurhveli jarðar að minnsta kosti. Niðurstöður rannsókna í Finnlandi, Hollandi og Bretlandi hnígi í þessa átt. Breski fuglafræðisjóðurinn ráði yfir eggjasafni sem nái aftur til ársins 1929. Samkvæmt skýrslu frá árinu 2020 hafi varptímabil 38 algengra fuglategunda í Bretlandi færst fram um á bilinu þrjá daga til 21 dags frá árinu 1960.

Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur og prófessor hjá Háskóla Íslands, segir breytingu á varptíma ekki hafa verið skoðaða mikið hérlendis. Hins vegar sjáist greinilegar breytingar á komutíma farfugla.

„Fuglar sem eru með vetursetu nálægt okkur eru að koma fyrr á vorin en fuglar sem eru að fara langt, eins og kría og spói, og hafa vetursetu í Afríku, sýna ekki mikinn breytileika í komutíma. Fuglar eins og tjaldur eða lóa sem eru nær okkur hafa með tíð og tíma verið að koma fyrr á vorin,“ segir Gunnar Þór.