„Fuglaflensa greindist á býli en við erum að bíða eftir niðurstöðum úr sýni um nákvæma tegund veirunnar sem ætti að berast í vikunni,“ segir Brig­itte Brugger, sérgreinadýralæknir í málefnum alifugla, um stöðu fuglaflensufaraldursins.

Í gær staðfesti Matvælastofnun að sýni sem voru tekin á býlinu Reykja á Steðjum fyrir helgi bentu til þess að fuglaflensa hefði drepið heimilishænu og villtan hrafn á býlinu. Von er á niðurstöðum úr fjölda sýna á næstu dögum sem gefa skýrari mynd af stöðu faraldursins hér á landi.

„Það var ákveðið að aflífa allar heimilishænurnar enda voru sjúkdómseinkenni víða á býlinu. Eftir að fyrsta dauða hænan fannst voru aðrar hænur farnar að veikjast. Það bendir allt til þess að um sé að ræða afar skæða fuglaflensuveiru og við göngum út frá því þar til við fáum niðurstöðurnar að utan.“

Brigitte segir að almenningur sé að spyrjast fyrir um neyslu alifuglakjöts og hvort veiran geti borist í önnur dýr og mannfólk.

„Við höfum fengið inn margar fyrirspurnir um hvort óhætt sé að borða egg og afurðir af alifuglum. Það eru hverfandi líkur á því að fólk smitist af neyslu alifuglaafurða,“ segir Brigitte, aðspurð um neyslu alifuglaafurða.

„Það eru dæmi um að smit hafi greinst í refum og minkum sem hafa veitt villta fugla en það eru sárafá dæmi,“ segir Birgitte.

„Eins og staðan er í dag er óþarfi að hafa áhyggjur af því að smit berist í hunda og ketti eða önnur heimilisdýr, því það hefur til þessa verið mjög ólíklegt að hún berist í önnur dýr eða mannfólk.“