Fuglaflensuveirurnar sem greinst hafa að undanförnu hér á landi eru af hinu skæða afbrigði H5N1 sem geisar í nágrannalöndum okkar um þessar mundir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Fram til þessa hafa fuglaflensuveirur greinst í sýnum úr 18 villtum fuglum af sjö tegundum, grágæs, haferni, heiðagæs, hrafni, súlu, svartbaki og helsingja.

Samkvæmt Matvælastofnun er efsta stig viðbúnaðar í gildi vegna fuglaflensu og smithætta fyrir alifugla því mikil. Brýnt er fyrir fuglaeigendum að gæta ítrustu sóttvarna.

Matvælastofnun hvetur fólk til að tilkynna þeim um dauða fugla sem það finnur með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar, mast.is. Þá skuli tilkynna veika villta fugla til viðkomandi sveitarfélags.