Fugla­flensa hefur greinst í fleiri villtum fuglum á til­rauna­stöðinni að Keldum. Mat­væla­stofnun greinir frá þessu á vef sínum og hvetur fugla­eig­endur til að vernda fugla sína gegn smiti.

Fugla­flensu­veirur af gerðinni H5 greindust í átta sýnum af fimm­tán sem tekin voru úr villtum fuglum í vikunni og rann­sökuð á til­rauna­stöð Há­skóla Ís­lands að Keldum. Fimm sýni voru með ó­ljósa svörun og verða rann­sökuð nánar, en í tveimur sýnum greindust engar veirur. Sýni sem tekin voru úr ali­fuglum á tveimur stöðum í vikunni voru öll nei­kvæð.

Af þeim átta sýnum sem greindust já­kvæð voru þrjú úr súlum sem fundust í Njarð­vík og Grinda­vík, þrjú úr súlum frá Búðum á Snæ­fells­nesi, eitt úr grá­gæs á Akur­eyri og eitt úr svart­bak á Húsa­vík.

„Ljóst er að á þessari stundu er fugla­flensa út­breidd í villtum fuglum og smit­hætta fyrir ali­fugla og aðra fugla í haldi manna því mikil,“ segir í frétt MAST. „Fuglar sem haldnir eru að hluta til utan­dyra og í húsum þar sem smit­varnir eru ó­full­nægjandi, eru í mestri hættu að smitast.“

Þá segir jafn­framt að til að koma í veg fyrir sjúk­dóm í við­komandi hópi fugla og tryggja að ekki berist smit úr þeim í villta fugla sé nauð­syn­legt að við­hafa stöðugar og strangar sótt­varnir alls staðar þar sem fuglar eru haldnir.

Að sögn MAST skiptir mestu máli hvað við kemur verndun ali­fugla gegn smiti að hafa þá innan­dyra eða undir þaki í lokuðu gerði þar sem villtir fuglar komast ekki að og þar sem drit frá villtum fuglum getur ekki fallið. Þá hvetur MAST fugla­eig­endur til að nota sér­stakan skó- og hlífðar­fatnað við dag­lega um­hirðu fuglanna, sem ekki er notaður utan þess húss og gerðis sem fuglarnir eru í.