Árlega koma upp allnokkur tilvik þar sem flær valda usla á heimilum fólks, yfirleitt í rúmum og að nóttu til. „Flær lifa helst í grenjum dýra eða hreiðrum enda halda dýrin sig þar helst og heimsækja þann stað aftur og aftur. Rúmið er því rökréttur staður fyrir flærnar ef þær vilja komast í tæri við okkur,“ segir Karl Skírnisson, sníkjudýrafræðingur hjá Háskóla Íslands.

Að sögn Karls skiptast flær í tvo flokka á Íslandi. Annars vegar spendýraflær sem finnast helst á hagamúsum og brúnrottum og fuglaflær sem, eins og nafnið gefur til kynna, sækja helst í fugla. Alls eru fimm tegundir spendýraflóa hérlendis og fimm tegundir fuglaflóa. Algengust er svokölluð starafló eða hænsnafló en einnig dúnfló sem flestir dúnbændur landsins þekkja af illu einu.

Helst eru það flærnar sem sækja í fugla sem angra okkur mannfólkið „Ég hef aldrei greint spendýrafló á heimili en árlega greini ég talsvert af fuglaflóm. Ástæðan er líklega sú að nagdýrin fá ekki að vera í friði í nálægð við mannabústaði. Rotturnar eru að mestu lokaðar niðri í holræsum og mýs eru ekki beint velkomnar á heimilum fólks,“ segir Karl.

Fuglar verpa hins vegar oft nærri mannabústöðum, sérstaklega nýlegir landnemar eins og starrinn. Þessi nálægð getur orðið til þess að flærnar leggist á menn.

Karl Skírnisson, sníkjudýrafræðingur
Fréttablaðið/Eyþór

Lífsferill fuglaflóa er á þá leið að flóin heldur til í hreiðri fuglsins og sýgur þar blóð úr stálpuðum fuglum og ungum. Flóin verpir eggjum í hreiður og örsmáa hvítar lirfur, eða eins konar maðkar, líta dagsins ljós. Þessar lirfur lifa á skít, í bókstaflegri merkingu, og að endingu púpast þær. Þegar fuglarnir yfirgefa hreiðrið hafa púpurnar hægt um sig þar til einhver hreyfing kemst á hreiðrið að ári. Þá klekjast púpurnar út sem flær og sama hringrás hefst.

„Ef engin afskipti eru höfð af hreiðrum þá gengur þessi hringrás svona. Flóin fer bara á flakk ef hún kemst ekki lengur í blóðið í fuglinum,“ segir Karl. Nefnir hann sem dæmi að hreiður spörfugla eru oft lokuð af þegar þeirra verður vart við mannabústaði. „Þá skyndilega svelta flærnar og leita sér að öðrum valkostum. Flærnar eru mjög blóðþyrstar og smakka á öllu sem þær komast í tæri við. Þá eiga þær til að fara inn á heimili fólks og valda þar yfirleitt usla,“ segir Karl.

Þá er einnig mjög algengt að heimiliskettir komist í hreiður fugla og beri þannig flærnar inn á heimili fólks.

Að sögn Karls er besta leiðin í baráttu við flær að fjarlægja hreiður nálægt húsum eftir að fuglarnir hafa yfirgefið það. Flær lifa bara í nokkrar vikur og því ólíklegt að þær sem eru í fullu fjöri þetta vorið eða sumarið muni leita annað eftir að fuglarnir hverfa á braut. Það er kynslóð næsta árs sem fólk þarf að hafa áhyggjur af.