Félagsstofnun stúdenta hefur orðið við kröfum íbúa Vetrargarða og beðist afsökunar á þeim óþægindum og óöryggi sem samskipti þeirra og tilkynningar um flutninga vegna fyrirhugaðra framkvæmda ollu.

Vetrargarður er fjölskylduhúsnæði Stúdentagarða en þar búa fjölmargir foreldrar í námi með börn í leikskólum og grunnskólum. Fréttablaðið greindi frá því í lok janúar að FS hefði tilkynnt fjölskyldunum að þær hefðu mánaðarfrest til að flytja út vegna viðhalds og viðgerða á Eggertsgötu 6-8. Ákvörðun var tekin í janúar að ráðast í framkvæmdirnar og var ekki minnst á í framkvæmdaáætlun í leigusamningum.

Tilkynning FS kom flatt upp á íbúa sem voru margir að standa í verkefnaskilum. Benti einn íbúi á að margir ættu börn í leikskóla og væri ekki sjálfsagt að fá leikskólapláss í öðru hverfi. Voru íbúar einnig ósáttir við að fá ekki aðstoð við flutninganna eða leiguþak.

Aðgerðirnar bitna ekki síst á börnunum

Íbúar sögðu FS hafa boðið þeim afarkosti: búa áfram í sama húsnæði á meðan framkvæmdir standa yfir, eða „velja“ það að flytja í aðrar og jafnvel dýrari íbúðir og greiða hærra verð fyrir.

FS virtist ekkert ætla að láta hagga sér en eftir að íbúar lýstu því yfir að þeir hyggðust leita réttar síns var ákveðið að reyna að leita sáttar. Þá höfðu íbúar sent opið bréf til rektors HÍ um að Félagsstofnun stúdenta væri að þvinga barnafjölskyldur til þess að flytja á miðri önn, án fyrirvara, málsbóta og tilrauna til samstarfs.

„Héðan vill enginn flytja. Í öllum íbúðum Vetrargarða búa börn. Börnin okkar sækja leikskóla, grunnskóla og tómstundir í hverfinu og því ljóst að aðgerðir FS bitna ekki síst á börnunum sem hafa nú þegar orðið fyrir miklu raski í kjölfar heimsfaraldurs,“ sögðu íbúar í bréfi til rektors.

Vetrargarðar.
Mynd: Félagsstofnun Stúdenta

FS gaf sér forsendur sem ekki áttu sér stoð

Íbúar funduðu með fulltrúum FS þann 16. febrúar síðastliðinn þar sem farið var yfir ákvarðanartökur hjá FS leiddu til atburðanna. Við skipulagningu framkvæmda sem áttu að hefjast í ágúst kom í ljós að óvenju mikið af fjölskylduhúsnæði myndi losna á vormisseri.

„Ekki hefur það gerst áður í sögu Stúdentagarða að svo margar íbúðir losni á sama tíma. Skapaði þetta óvænt tækifæri til að geta tryggt öllum íbúum húsnæði á meðan á framkvæmdum stæði sem og eftir að leigusamningar losnuðu 10. ágúst. Því var ákveðið að flýta framkvæmdum,“ útskýrði Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS í bréfi til íbúa.

Viðurkennir FS að hafa gert mistök í samskiptum sínum og biðst innilegrar afsökunar. Þau hafi gefið sér forsendur sem ekki áttu sér stoð þegar kom að upplýsingaflæði og hefði mátt standa miklu betur að því.

„Við hjá FS gerum okkur nú grein fyrir að sköpuð var óþægileg staða fyrir íbúa. Mistök okkar fólust í að gefa okkur hluti í stað þess að ráðfæra okkur við íbúa um hvort þeim hugnaðist að fara þessa óvenjulegu leið umfram aðra. FS mun læra af þessu og laga verkferla svo íbúar upplifi ekki að komið sé aftan að þeim í framtíðinni, þegar um framkvæmdir sem þessar verður að ræða.“

Allir íbúar eru foreldrar í námi.
Fréttablaðið/ Vilhelm Gunnarsson

Leiguþak, aukaár og aðstoð

FS mun hefja framkvæmdir á fyrsta áfanga húsnæðisins og bjóða íbúum viðeigandi húsnæði. Þau sem kjósa að búa í núverandi íbúð út leigusamniginn hafa kost á því en FS býður íbúum eftirfarandi leiðir:

  • Leiguþak — Þau sem flytja í dýrara húsnæði greiða áfram óbreytta leigu til 10. ágúst.
  • Leigusamningur til 2022 — Íbúar fá eitt aukaár á Stúdentagörðum óháð því hvar þeir eru staddir í námi.
  • Aðstoð við flutning — Flutningabíll FS verður til taks á dagvinnutíma til að aðstoða við flutninga. Einnig verður veitt aðstoð við flutninga á stærri húsgögnum.
  • Afsláttur vegna minni íbúða — Þau sem flytja í minna húsnæði fá einn mánuð í leiguafslátt.
  • Trygging fyrir leiguafslátt vegna rasks og hávaða.