Frum­varp Svan­dísar Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra, sem skyldar fólk frá há­á­hættu­svæðum til að dvelja á sótt­kvíar­hóteli og var samþykkt á Alþingi í síðustu viku, var samið á einum degi. Þetta segir Hall­dóra Mogen­sen, for­maður þing­flokks Pírata, að komið hafi fram á fundi vel­ferðar­nefndar um frum­varpið.

Hún gagn­rýnir hve lítinn tíma nefndin og þingið hafi fengið til að fjalla um frum­varpið og að því hafi verið „trukkað í gegn um vel­ferðar­nefnd og þingið á einni nóttu“. Hún segir Pírata helst hafa á­hyggjur af því að ekki hafi verið tryggt nægi­lega vel að nýju lögin haldi ef ein­hver á­kveði að láta á þau reyna fyrir dóm­stólum líkt og gerðist með reglu­gerð ráð­herrans fyrr í mánuðinum. „Það er okkar [Pírata] helsta á­hyggju­efni við þetta allt saman,“ sagði Hall­dóra í Silfrinu í dag.

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.

Hún ræddi þar málið á­samt Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni, for­manni Mið­flokksins, og Vil­hjálmi Árna­syni, vara­for­manni þing­flokks Sjálf­stæðis­flokksins. Sig­mundur var á sama máli og Hall­dóra; málið hefði verið keyrt í gegn af ríkis­stjórninni sem við­brögð við annars vegar skoðana­könnunum sem sýndu vilja al­mennings til hertra aðgerða og hins vegar svipuðu frum­varpi Sam­fylkingarinnar. „Ríkis­stjórnin vildi að­eins virðast vera að bregðast við, vera að gera eitt­hvað,“ sagði Sigmundur.

Unnið í flýti vegna þrýstings

Sam­fylkingin lagði í síðustu viku fram frum­varp um hertar að­gerðir við landa­mærin en henni þótti ríkis­stjórnin þá ekki hafa brugðist nægi­lega hratt við eftir dóm héraðs­dóms sem varð til þess að heil­brigðis­ráð­herra bakkaði með upp­runa­legu reglu­gerðina. Í kjöl­farið lagði ríkis­stjórnin sitt frum­varp fram, sem virðist þá hafa verið samið í flýti, á einum degi, ef marka má orð Hall­dóru um það sem fram kom á fundi vel­ferðar­nefndar um frum­varpið.

Sig­mundur Davíð gagn­rýndi það einnig í Silfrinu að sá fundur hafi ekki verið opinn; málið hafi átt erindi við þing­menn utan nefndarinnar og al­menning í heild sinni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Fréttablaðið/Eyþór

Erfitt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Svo virðist sem málið hafi verið flókið fyrir ríkis­stjórnina. Eftir að farið var til baka með reglu­gerðina sem skyldaði fólk á sótt­kvíar­hótelið komu upp há­værar kröfur í sam­fé­laginu um að koma á lögum sem heimiluðu þessa ráð­stöfun. Hluti þing­flokks Sjálf­stæðis­flokksins hefur þó verið afar gagn­rýninn á þessar að­gerðir og þykir var­huga­vert að ríkis­valdið geti skikkað fólk til að dvelja inni­lokað á sótt­kvíar­hóteli.

Vil­hjálmur Árna­son var þá spurður hvar hann stæði í málinu. „Ég var gagn­rýninn á það í upp­hafi.“ Hann telur þó að sú gagn­rýni sem þing­flokkur hans hafi haldið uppi í málinu hafi gert það skýrara og betra. „Ég tel ein­mitt að þessi gagn­rýni hafi orðið til þess að málið þroskaðist í rétta átt. Núna er þetta í tak­markaðan tíma, planið var birt og komið með miklu fleiri rök fyrir því hvaðan smitin koma, hvaðan brotin voru og því er þessi lög­gjöf núna af­markaðri.“

Spurður hvort hann telji þá að frum­varpið hafi verið nægi­lega vel undir­búið sagði hann: „Mér finnst að­gerðirnar í heild sinni sem við vorum að gera þarna vera vel undir­búnar. Það má kannski deila um það ein­mitt að frum­varpið sem slíkt var kannski samið hratt. En það sem kom var ein­mitt eitt­hvað plan. Fólkinu var gefin ein­hver von og trú og það var upp­lýst meira um það af hverju þarf að setja þessa laga­setningu.“