Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til að árétta að þeir séu ósáttir með þær leiðir sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vill fara til þess að styðja við einkarekna fjölmiðla. Óli Björn Kárason er aðalflutningsmaður frumvarpsins, sem felur í sér að tryggingargjald verði afnumið á einkarekna fjölmiðla. Lilja tekur fram að í frumvarpi hennar felist aðgerðir sem jafnist á við afnám tryggingargjalds og bendir jafnframt á að Óli Björn hafi komið að gerð þeirra. Jón Gunnarsson, meðflutningsmaður frumvarps Óla Björns segir það skýrt að Sjálfstæðismenn séu ekki sammála þeim leiðum sem menntamálaráðherra vill fara. Ekki náðist í Óla Björn við vinnslu fréttarinnar.

Lilja hefur ekki áhyggjur

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra segir í samtali við Fréttablaðið að Óli Björn verði sjálfur að svara fyrir það hvers vegna hann leggi frumvarpið fram. „Ég er bara að mæla fyrir mínu frumvarpi.“ Hún bendir á að tillögur í frumvarpi hennar hafi verið unnið í samstarfi við meðal annars Óla Björn.

Í því frumvarpi felast tillögur um endurgreiðslu allt að átján prósenta af rekstrarkostnaði fjölmiðla og heimild fyrir stuðningi upp á fjögur prósent af launakostnaði.

Frumvarp hennar hefur nú þegar verið samþykkt af bæði ríkisstjórn og þingflokkum ríkisstjórnarinnar og því segist Lilja ekki hafa áhyggjur af málinu. Jón bendir hins vegar á að sjálfstæðismenn hafi alltaf verið hreinskilnir með að þeir séu ósammála tillögum menntamálaraðherra.

klausturting 12.jpg

Lækkun skatta sé skilvirkari

Sjálfstæðismenn hefðu talað fyrir skattaívilnunum í stað ríkisstyrkja eins og frumvarp menntamálaráðherra gerir ráð fyrir. „Þetta er sú leið sem við viljum fara og við erum að setja fram þetta frumvarp til að árétta það,“ segir Jón.

Í greinargerð frumvarpsins segir að flest ríki Evrópu styðji við einkarekna fjölmiðla „með skattalegum aðgerðum og/eða beinu fjárhagslegum stuðningi.“ Þar segir jafnframt að lækkun skatta sé skilvirkasta leiðin til að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla. „Samræmdar og gegnsæjar skattaívilnanir tryggja að allir einkareknir fjölmiðlar sitji við sama borð og fá hlutfallslega sömu ívilnun.“

Fjölmiðlafrumvarpið á dagskrá Alþingis í dag

Jón segir að það sé jafnframt skýr krafa af þeirra hálfu að ekki verði ráðist í aðgerðir á fjölmiðlamarkaði án þess að staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði verði endurskoðuð. Lilja segir að það sé meðal þess sem verið sé að ræða í tengslum við endurskoðun á þjónustusamningi við RÚV.

Að sögn Lilju byggir frumvarp hennar á því þeim leiðum sem tíðkist á norðurlöndum. Áætlað er að Lilja mæli fyrir fjölmiðlafrumvarpi sínu í dag, en það hafði áður verið tekið af dagskrá Alþingis.