Stjórnarfrumvarp um framlengingu hlutabótaleiðar var samþykkt á Alþingi í kvöld. Frumvarpið var samþykkt með 27 atkvæðum en 22 greiddu ekki atkvæði.

Ekki var einhugur í stjórnarflokkunum um öll þau auknu skilyrði sem sett voru fyrir nýtingu hlutabótaleiðarinnar og ekki voru allar breytingartillögur samþykktar.

Málið var til umfjöllunar á Alþingi frá því síðdegis í dag.

Málið hefur verið rætt í nefndum þingsins í dag, einkum með hliðsjón af skýrslu Ríkisendurskoðunar um úrræðið sem birt var í gær. Ríkisendurskoðun gagnrýndi meðal annars að mun fleiri fyrirtæki hefðu nýtt leiðina en þyrftu á henni að halda og að ábendingar hefðu komið um misnotkun af ýmsum toga þann stutta tíma sem úrræðið hefur staðið til boða.

Formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins fór í andsvör við Vilhjálm Árnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins sem situr þeirri nefnd sem hefur haft málið til meðferðar á Alþingi. Í ræðu sinni sagðist Willum rasandi á niðurstöðu um málið í velferðarnefnd.

„Það sem við erum að ræða hérna, þessi skilyrði, þau ganga bara of langt, segjum það bara eins og það er,“ sagði Willum og bætti við: „Þau ganga í raun og veru gegn meginmarkmiðum frumvarpsins.“ Willum vék að því markmiði málsins að verja ráðningarsamband launafólks, en skilyrði sem setja eigi fyrir þeirri aðstoð sem í úrræðinu feli í sér að atvinnurekendur kunni að vera „Þvingaðir í það, horfandi framan í þessi skilyrði, að segja fólki upp, punktur.“

Vilhjálmur tók undir með Willum og tók fram að ef hann hefði samið frumvarpið sjálfur þá væru þessi skilyrði ekki í frumvarpinu.