Það vakti undrun þingmanna þegar þeim var tilkynnt um að frumvarpi Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, um réttindi sjúklinga var tekið af dagskrá Alþingis með skömmum fyrirvara í dag.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, greindi frá þessu í upphafi þingfundar á Alþingi í dag og gaf hann engar skýringar um það hvers vegna málið hafi verið tekið af dagskrá þingfundarins en að það hafi verið í samráði við heilbrigðisráðherra.

Fréttablaðið greindi frá frumvarpinu í gær og var Willum gagnrýndur fyrir samráðsleysi við gerð frumvarpsins. Forsvarsmenn Geðhjálpar sögðu ákvörðun heilbrigðisráðherra um að leggja fram frumvarpið hafa komið verulega að óvart og kvörtuðu þau undan samráðsleysi.

Kvörtuðu yfir samráðsleysi

Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, sagði í samtali við Fréttablaðið að samtökin hafi fundað með Willum 22. desember síðastliðinn þar sem hann hafi lofað þeim samráði áður en frumvarpið yrði lagt fram á ný.

Frumvarpið var fyrst lagt fram í fyrra en var stoppað af. Stjórn Geðhjálpar óskað í gær eftir því að frumvarpið yrði dregið til baka. Héðinn sagði nauðsynlegt að samráð væri haft við fulltrúa sjúklinganna sem frumvarpið snerti.

Líkt og sjá má var málið tekið af dagskrá þingsins í dag.
Skjáskot af vef Alþingis.

Klassísk vinnubrögð

Stjórnarandstaðan gagnrýndi vinnubrögð þingsins um að taka mál af dagskrá með svona stuttum fyrirvara.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist undra tilkynninguna og sagði málið gífurlega mikilvægt og að það þarfnaðist vandlegrar umræðu á þingi. Hún krafðist svara hvers vegna málið hafi verið tekið af dagskrá með svo skyndilegum hætti líkt og raun bar vitni.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, heimtaði einnig svör vegna málsins og sagði að þingmenn ættu rétt á að vita hvert framhaldið yrði.

Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var ósammála Helgu Völu og Andrési Inga og sagðist hafa skynjað hik á orðum Willum Þórs. „Heilbrigðisráðherra hafi eiginlega áttað sig á því að það var frumhlaup hjá honum að fara fram með málið,“ sagði Logi og vildi hrósa ráðherra og hvetja hann til að koma ekki fram með málið fyrr en það væri tilbúið.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði málið óheppilegt en fagnaði því að ráðherra hygðist vinna málið betur. Það væri þó klassískt fyrir þingið að kippa máli út með svo stuttum fyrirvara.