Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, gagn­rýndi í kvöld harð­lega fyrir­hugað mál for­sætis­ráð­herra um að tryggja rétt barna sem fæðast með ó­dæmi­gerð kyn­ein­kenni gegn ó­nauð­syn­legum skurð­að­gerðum og kallaði það „ó­hugnan­legasta þing­mál“ sem hann man eftir frá seinni tíð. Þetta sagði hann í um­ræðum um stefnu­ræðu for­sætis­ráð­herra á þing­fundi.

Frum­varpið, sem var lagt fram í ríkis­stjórn síðasta þriðju­dag og birtist á þingmálaskrá sem þingmenn fengu í dag, var unnið á til­lögum starfs­hóps um mál­efni barna sem fæðast með ó­dæmi­gerð kyn­ein­kenni. Í skýrslu hópsins kemur fram að með því að grípa inn í líkam­lega frið­helgi þessara barna með ó­nauð­syn­legum að­gerðum sé brotið á rétti þeirra til heilsu. Í skýrslu hópsins segir að fjöl­margar al­þjóða­stofnanir hafi bent á skað­semi þess að að­gerðir þessar séu fram­kvæmdar án upp­lýsts sam­þykkis inter­sex barna og án heilsu­fars­legrar nauð­synjar. Málið hefur verið stór hluti af hags­muna­bar­áttu inter­sex fólks í gegnum tíðinna.

Í anda absúrdistans Camus

„Í ræðu sinni rakti for­sætis­ráð­herra þekkt á­huga­mál ríkis­stjórnarinnar, sagði frá Co­vid far­aldrinum og vitnað í­trekað í franska heim­spekinginn Albert Camus. Það var reyndar við­eig­andi að ráð­herrann skyldi vitna í Camus, ekki vegna þess að hann var sósíal­isti, heldur vegna þess að hann skil­greindi sig sem absúrdista eða fá­rán­leika­sinna,“ sagði Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, í upp­hafi ræðu sinnar á Al­þingi í kvöld.

„Sú stefna sem ríkis­stjórnin kynnir nú í lok kjör­tíma­bilsins er í anda Alberts Camus, hún er absúrd, hún er fá­rán­leg,“ hélt Sig­mundur á­fram. „Þar heldur á­fram hin enda­lausa runa kerfis­mála sem flest snúast um að sýna að Ís­land sé þægasti krakkinn á upp­töku­heimili Evrópu­sam­bandsins. En að því marki sem ríkis­stjórnin sýnir pólitískar á­herslur, nú við lok kjör­tíma­bilsins, skortir mann orð til að lýsa nægri undrun á því hvert þessi ríkis­stjórn stefnir.“

Finnst frumvarpið óhugnanlegt

Því næst sneri Sig­mundur sér að um­ræddu frum­varpi, „sem miðað við lýsinguna er lík­lega ó­hugnan­legasta þing­mál sem ég man eftir í seinni tíð“ eins og hann komst að orði. „Þar virðist standa til að leggja bann við því að börn fái nauð­syn­legar og lífs­bætandi að­gerðir,“ hélt Sig­mundur á­fram.

„Börn geta fæðst með ýmis konar fæðingar­galla. Stundum er ekkert við því að gera en sem betur fer gera nú­tímavísindi okkur kleift að bæta úr mörgum þeirra. Nú er lagt til að ó­heimilt verði að gera að­gerðir til að lag­færa, lækna, á­kveðin líf­færi, eða það sem kallað er ó­dæmi­gerð kyn­ein­kenni. Það á við um 1,7 prósent barna sam­kvæmt gögnum ráðu­neytisins.“

Hann heldur því þá fram að með þessu sé ríkis­stjórnin að banna for­eldrum og læknum að nýta nú­tíma­lækningar. „Þetta er að­för að fram­förum og vísindum. Þetta er að­för að frelsi for­eldra, þetta er aðför að frelsi heil­brigðis­starfs­fólks og þetta er að­för að réttindum barna,“ sagði hann. „Ég trúi því ekki að Sjálf­stæðis­flokkurinn hleypi þessu máli í gegn en það hafa reyndar verið mörg mál sem ég hélt að sá flokkur gæti ekki sam­þykkt. En hann gerði það nú samt.“

Sagði hann þá þing­mála­skrá ríkis­stjórnarinnar upp­fulla af furðu­málum. „Hún boðar lög­leiðingu fíkni­efna, hvorki meira né minna, en virðist í staðinn ætla að beita sér gegn nikó­tín­púðum og raf­rettum. Gerð verður önnur til­raun til að vega að starfi ís­lenskra leigu­bíl­stjóra á sama tíma og þeir hafa orðið fyrir veru­legri tekju­skerðingu án þess að fá mikla að­stoð. Nú á að rústa ís­lenskri nafna­hefð sem hefur varð­veist frá land­námi þar til þessi ríkis­stjórn tók við.,“

„Er eitt­hvað í síðustu mála­skrá ríkis­stjórnarinnar sem hefði ekki átt jafn­vel við og reyndar betur ef Vinstri græn væru í ríkis­stjórn með til dæmis Pírötum og Við­reisn?“ spurði hann þá. „Þetta þarf ekki að vera svona, það er annar val­kostur, og það munu þing­menn Mið­flokksins sýna nú á nýju þingi.“