Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur um breytingar á lögum um neyslurými voru samþykkt á Alþingi rétt í þessu en frumvarpið felur í sér að ákvæðum yrði bætt við umrædd lög sem heimiluðu stofnun og rekstur neyslurýma.

Í slíkum rýmum verður einstaklingum verður heimilt að neyta ávana- og fíkniefna í æð að uppfylltum skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð. Frumvarpið var samþykkt með 42 atkvæðum gegn tveimur en sex greiddu ekki atkvæði.

Meðal þeirra sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata.

Skapi mikla hættu

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en Birgir sagði málið illa undirbúið og að hætta væri á að verkefnið ynni gegn sjálfu sér. Ásmundur sagði ljóst að stór hópur fíkla í samfélaginu þyrftu á aðstoð að halda.

„Það er ljóst að með þessum lögum er verið að opna leiðir fyrir nýja fíkla, yngri fíkla, til að nýta sér slíka aðstöðu og mér er sagt af mér fróðari mönnum í meðferðarúrræðum að það sé afar hættulegt og skapi mikla hættu að hleypa ungum fíklum inn í slíka aðstöðu,“ sagði Ásmundur.

Löngu tímabært skref

„Þetta er skref sem er löngu tímabært að taka. Þetta er róttækt skref. Það er vel undirbyggt. Það sýnir kjark löggjafans í þessum efnum. Við erum með þessu móti að bjarga mannslífum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um frumvarpið.

Hún sagðist vera sérstaklega stolt af því að vera heilbrigðisráðherra á þessum tímamótum og þakkaði velferðanefndinni fyrir góð stör. Þá þakkaði hún jafn framt fyrir þverpólitískan stuðning þingmanna.

„Við erum að sýna fólki virðingu sem eru í sérstaklega erfiðri stöðu og er jaðarsettast af öllum íbúum samfélagsins og gríðarlega mikilvægt að við mætum því fólki þar sem það er statt og sýnum því virðingu.“

Fréttin hefur verið uppfærð.