Reglur um kynjahlutföll í stjórnum opinberra fyrirtækja á borð við RÚV ohf. hafa lengi verið til umræðu, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Eins og greint var frá á vef Fréttablaðsins í vikunni sitja nú aðeins þrjár konur í stjórn RÚV og sex karlar. Stjórnin er kosin af Alþingi og talið hefur verið torvelt að binda hendur þeirra sem tilnefna fulltrúa í stjórnina, en það eru að uppistöðu stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi.

Frumvarp um málið til meðferðar

„Síðastliðinn október lagði forsætisnefnd Alþingis til breytingu á lögum um þingsköp Alþingis í tengslum við endursköpun jafnréttislaga,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í samtali við Fréttablaðið. „Þar var óskað eftir að kannaður yrði vilji um breytingar á þingskapalögum þannig að kynjahlutföllin yrðu sem jöfnust.“

Frumvarpið var lagt fram í október síðastliðnum og er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd.

Páll Magnússon formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir að málið verði tekið fyrir í nefndinni á næstunni.

„Málið er til meðferðar í nefndinni og verður til umræðu á næstunni,“ segir Páll Magnússon formaður nefndarinnar. Páll segist ekki hafa sérstaka skoðun á nýkjörinni stjórn RÚV sem fyrrverandi útvarpsstjóri en segir málið sérkennilegt. Hann bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tilnefnt bæði karl og konu.

„Skýtur óneitanlega skökku við“

„Mér finnst þetta óeðlileg kynjahlutföll,“ segir hann. „Það skýtur óneitanlega skökku við að þegar kemur til kasta Alþingis að kjósa í stjórnir af þessu tagi að þá geri ekki allir flokkar sömu kröfur til sjálfra sín og þeir gera til fyrirtækja á almennum markaði.“