Fyrirtækjum verður veittur mánaðarfrestur á helmingi tryggingagjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda sem voru á gjalddaga í mars samkvæmt frumvarpi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Frumvarpið verður lagt fram á Alþingi á morgun og óskað eftir flýtimeðferð til að það geti orðið að lögum samdægurs. Lagabreytingarnar seinka tekjum ríkissjóðs upp á 22 milljarða.

Gjalddaga frestað um mánuð

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu færa eindaga staðgreiðslu helmings þeirra opinberu gjalda og tryggingagjalds sem er að óbreyttu næsta mánudag, 16. mars til 15. apríl næstkomandi.

Í tilkynningu segir að tíminn sem greiðslufrestur varir samkvæmt frumvarpinu verði nýttur til útfærslu nýrrar leiðar til að tryggja fyrirtækjum í erfiðleikum úrræði til greiðsludreifingar. Um tímabundna og almenna einskiptisaðgerð er að ræða segir í tilkynningunni og því lagt til að breytingin verði gerð með bráðabirgðaákvæðum í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald.

Þingflokkar funduðu í kvöld

Eftir ríkisstjórnarfund fór frumvarpið til kynningar í þingflokkum stjórnarflokkanna sem funduðu í alþingishúsinu í kvöld.

Lagabreytingarnar eru fyrsti þáttur aðgerða ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19 sem kynntar voru á þriðjudag.