Lýðheilsa Fimm þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt til lagabreytingu á áfengislögum. Ef frumvarpið verður samþykkt eykst aðgengi að áfengi, þar sem búðum verður heimilt að selja áfengi alla daga ársins, líka á stórhátíðum.

Samkvæmt núgildandi ákvæðum skulu áfengisútsölustaðir lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst. Af ákvæðunum leiðir einnig að áfengisútsölustöðum er óheimilt að hafa opið á sunnudögum.

„Slíkt bann við opnunartíma staða sem selja áfengi og sölu frá framleiðslustað, samræmist ekki tíðaranda samfélagsins,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Einnig segja Framsóknarþingmennirnir fimm, undir forystu Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur sem situr í velferðarnefnd, að með tilkomu nýrra áfengisverslana, sérstaklega netverslana, sé talið að veita þurfi áfengisútsölustöðum rýmri heimildir til að bregðast við.

Að mati flutningsmanna er eðlilegt að áfengisútsölustaðir hafi rétt til að ákveða opnunartíma án þess að það sé skilyrt í lögum. Breytingin myndi fela í sér að heimilt verður að hafa áfengisútsölustaði opna alla daga. Opnunartími ríkisrekinna áfengisverslana á Norðurlöndunum er almennt ákveðinn með öðrum hætti en lagasetningu. Stjórnir, reglugerðir og ákvarðanir ráðuneyta ráða för við slíka ákvarðanatöku. Slíkt veitir þeim verslunum rýmra frelsi til að ráða sínum opnunartíma og breyta honum ef ástæða er talin vera til þess.

Árni Einarsson, forvarnafulltrúi

Að mati flutningsmanna er frumvarpið til þess fallið að áfengi verði áfram selt í öruggu umhverfi þar sem eftirlit verði með aldurstakmörkum og stuðlað að forvörnum. Þá telja flutningsmenn að mikilvægt sé að blása til stórsóknar í forvörnum, meðal annars með því að auka það fjármagn sem eyrnamerkt er forvörnum og setja upp áætlun sem endurmetin verði með reglubundnum hætti. Meginefni frumvarpsins snúi að því að auka þjónustu við neytendur og að enn sé viðhaft tilgreint eftirlit með sölu áfengis.

Árni Einarsson, hjá Fræðslu og forvörnum, segir frumvarpið ganga í öfuga átt miðað við yfirlýsta stefnu í forvörnum.

„Aukið aðgengi að áfengi skilar sér samkvæmt rannsóknum beint í aukna neyslu. Í því ljósi er hér verið að leggja til neikvæðar breytingar," segir Árni.

Hann segir að ýmsar breytingar hafi orðið á síðustu misserum þar sem aðgengi að áfengi sé nánast stanslaust aukið. Framleiðendum hafi sem dæmi verið gert kleift að selja áfengi beint frá framleiðslustað. „Hún er dálítið sérstök þessi vegferð íslenskra stórnvalda þvert á tilmæli sérfræðihópa í heilbrigðiskerfinu, þar sem eindregið er verið að hvetja þjóðir til að draga úr áfengisneyslu. Miðað við það erum við algjörlega á öfugri leið.“

Þá segir Árni mikið talað um forvarnir á Íslandi á sama tíma og fjárheimildir til málaflokksins rýrni í gegnum lýðheilsusjóði.