Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, hafa lagt fram frumvarp sem kveður á um að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði. Markmið frumvarpsins er „að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart ríkisreknu fjölmiðlafyrirtæki,“ að því er fram kemur í greinargerð þess.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra hefur áður lýst þeirri ætlan sinni að taka RÚV af auglýsingamarkaði, en bæta þurfi stofnunni upp tekjutap sem því myndi fylgja. Þegar ráðherra ræddi málið síðast við fjölmiðla hugðist hún taka málið upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar en síðan hefur lítið heyrsrt frá ríkisstjórninni um málið.

RÚV verði alveg farið af auglýsingamarkaði 2024

Frumvarpið gerir ráð fyrir að samkeppnisrekstri RÚV á auglýsingamarkaði verði síðan hætt við upphaf ársins 2024. í frumvarpinu er hins vegar einnig lagt til bráðabirgðaákvæði sem gildi frá 2022 til 2024 og samkvæmt því verður RÚV „óheimilt að stunda beina sölu á auglýsingum, hlutfall auglýsinga megi ekki fara yfir fimm mínútur á hvern klukkutíma í útsendingartíma, óheimilt verði að slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum og að lokum er lagt til að kostun verði bönnuð.“

Með því að taka RÚV af samkeppnismarkaði í tveimur skrefum gefist stjórn RÚV tækifæri til að aðlaga rekstur að breyttum aðstæðum. Fjárveitingavaldið hafi ágætt svigrúm til að koma til móts við lægri nettótekjur sé það talið nauðsynlegt.

Þá fái RÚV aukið svigrúm til að sinna því menningarlega hlutverki sem því er ætlað samkvæmt lögum sé það ekki í samkeppni við aðra fjölmiðla.

Yfir tveir milljarðar í auglýsingatekjur á ári

Árið 2019 námu tekjur af samkeppnisrekstri RÚV 2,2 milljörðum króna. Til samanburðar má nefna að fyrirhugaðir styrkir í frumvarpi menntamálaráðerra um stuðning til einkarekinna fjölmiðla geta numið allt að 400 milljónum á ári.

Í greinargerð með frumvarpi Óla Björns og Brynjars segir að óvarlegt sé að ætla að þær tekjur muni koma óskertar í hlut einkarekinna fjölmiðla eftir að RÚV fer af auglýsingamarkaði. „Þó má ætla að tekjur sjálfstæðra fjölmiðla aukist verulega og mun meira en gert er ráð fyrir í frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Skynsamlegra er, að mati Óla Björns og Brynjars, „að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla með því að takmarka verulega samkeppnisrekstur ríkisins fremur en að koma upp flóknu kerfi millifærslna og ríkisstyrkja. Slíkt stuðlar að auknu heilbrigði á fjölmiðlamarkaði.“

Styttist í nefndarálit í fjölmiðlafrumvarpi ráðherra

Fjölmiðlafrumvarp Lilju hefur verið til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd síðan í janúar á þessu ári. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er nefndarálit í smíðum og má ætla að frumvarpið gangi til 2. umræðu í þinginu á næstunni.