Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um breytingar á stjórnarskrá hefur verið lagt fram á Alþingi. Um þingmannafrumvarp er að ræða en ekki hefðbundið stjórnarfrumvarp, sem þarf samþykki ríkisstjórnar.

Fjörugar umræður um stjórnarskrárbreytingar fóru fram á Alþingi í morgun og ljóst að forsætisráðherra mun þurfa að beita þingheim töluverðum fortölum til að koma frumvarpi sínu í gegn.

Formenn flestra flokka tóku þátt í umræðunni og var hver höndin upp á móti annarri og lýsti forsætisráðherra sérstökum vonbrigðum með umræðuna í lok hennar.

Ekki eru efnisbreytingar á þeim ákvæðum sem eru í frumvarpinu, frá því þau voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í haust, að öðru leyti en því að lagt er til að ríkissaksóknari fari með ákæruvald vegna ætlaðra embættisbrota ráðherra í stað þess að ákvörðun um þetta sé eftirlátin Alþingi.

Þá er einnig gert ráð fyrir því að stjórnarfrumvörp verði lögð fram í nafni ríkisstjórnarinnar í stað forseta Íslands.

Kjörtímabil forseta verði sex ár

Í frumvarpinu er lagt til að kjörtímabil forseta Íslands verði sex ár og er miðað við að forseti geti aðeins setið samfellt tvö kjörtímabil á Bessastöðum, eða í alls tólf ár, miðað við sex ára kjörtímabil.

Töluverðar breytingar eru einnig lagðar til á ákvæðum um hlutverk forseta, að mestu leyti til samræmis við ríkjandi framkvæmd.

Til að mynda verði formleg heimild forseta til að fella niður saksókn felld brott og hlutverk forseta við stjórnarmyndun skýrt og fært nær ríkjandi framkvæmd eins og það er orðað í frumvarpinu.

Þingræðisreglan fest í sessi

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hvorki forseti né forsætisráðherra hafi aðkomu að ákvörðunum um samkomutíma Alþingis og að þingið fari með aukið forræði yfir eigin störfum og starfstíma. Forseta Íslands beri að leita eftir áliti forseta þingsins og formanna þingflokka áður en hann fellst á tillögu forsætisráðherra um þingrof. Þá er lagt til að Alþingi geti fellt úr gildi lög sem forseti hefur synjað staðfestingar samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar til að afstýra þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að lokum er lagt til að forseti verði ekki lengur ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, nema þeim sem hann framkvæmir að tillögu ráðherra og ráðherra ber ábyrgð á.

Ríkissaksóknari ákæri ráðherra

Ákvæðum um ráðherraábyrgð er breytt og kveðið á um að ríkissaksóknari fari með ákæruvald í málum um refsiábyrgð ráðherra. Lagt er til að ekki verði lengur fjallað um Landsdóm í stjórnarskrá heldur verði fjallað um meðferð mála um ráðherraábyrgð í almennum lögum.

Forystuhlutverk forsætisráðherra er sérstaklega orðað í frumvarpinu og ákvæði um ríkisstjórnarfundi gerð ítarlegri.

Í frumvarpinu er lagt til að Alþingi geti lýst vantrausti á tiltekinn ráðherra og beri honum að láta af embætti strax í kjölfarið. Samþykki Alþingi hins vegar að lýsa vantrausti á forsætisráðherra ber honum að biðjast lausnar fyrir sig og ríkisstjórnina en sitja áfram þar til ný ríkisstjórn hefur verið skipuð.

Enginn ráðherra getur setið í embætti eftir að Alþingi hefur samþykkt tillögu um vantraust á hann.

Umhverfisvernd og auðlindir

Lagt er til að þrjú ný ákvæði komi inn í stjórnarskrá á eftir kaflanum um mannréttindi og sjálfstjórn sveitarfélaga.

Í fyrsta lagi ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd, sem kveður meðal annars á um almannarétt fólks, og réttar til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál. Í öðru lagi ákvæði um auðlindir og þjóðareign á auðlindum, en ljóst er að ákvæðið er töluvert umdeilt meðal stjórnmálamanna, hefur til dæmis verið gagnrýnt að ekki sé tekið af skarið um tímabundnar nýtingarheimildir í ákvæðinu.

Að lokum er í frumvarpinu kveðið á um að íslenskan skuli vera ríkismál Íslands. Íslenskuna og íslenskt táknmál skuli styðja og vernda.

Hér að neðan má sjá ákvæðin eins og þau líta út í tillögu Katrínar.

Ákvæði um nátturvernd

Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.
    Allir eiga rétt til heilnæms umhverfis. Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa. Mælt skal nánar fyrir í lögum um inntak og afmörkun almannaréttar.
    Í lögum skal mælt fyrir um rétt almennings til upplýsinga um umhverfið og áhrif framkvæmda á það svo og til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið.

Auðlindir

Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Þær skal nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta landsmönnum öllum. Ríkið hefur eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna.
    Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði yfir þeim í umboði þjóðarinnar.
    Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.

Ríkismál Íslands

Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.
Íslenskt táknmál er tungumál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skal ríkisvaldið styðja það og vernda
.

Frumvarpið er aðgengilegt hér.